Föstudagur, 17. janúar 2014 - 14:45

Arabíska vorið - fyrirlestur hjá Mannfræðifélaginu

Mannfræðifélag Íslands stendur fyrir fyrirlestri 21. janúar nk. um Arabíska vorið.

http://mannfraedifelag.wordpress.com/2014/01/15/vorbodar-arabiska-vorsin...

Þá mun Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Massachucetts í Bandaríkjunum flytja erindið: Vorboðar arabíska vorsins. Hvað vissum við og hvað vissum við ekki?

Fyrirlesturinn byrjar kl. 20 og verður í Norræna húsinu.

„Arabíska vorið er bæði spennandi og ógnvekjandi sem hefur innleitt stórfelldar breytingar í Mið-Austurlöndum. Að hversu miklu leyti hefur fræðasamfélagið náð að aðlaga sig að þessari nýju stöðu? Eru allar gömlu bækurnar og greinarnar orðnar úreltar? Hvernig getum við fjallað um þetta svæði sem er að breytast svo hratt? Í erindinu verður fjallað um vandann að skilja og meta Mið-Austurlönd. Það kom flestum að óvörum að arabíska vorið braust út með þeim hætti sem það gerði. Farið verður yfir helstu kenningar um arabíska vorið með sérstakri hliðsjón að skrifum mannfræðinga og spurt hvernig fræðimenn hafi rannsakað þessar miklu breytingar sem átt hafa sér stað. Skoðað verður hvort þær hafi verið fyrirsjáanlegar og hvernig mannfræði Mið-Austurlanda hefur nálgast efnið. Spurt verður hvernig á að rannsaka byltingar og stórfelldar félagslegar breytingar og því velt fyrir sér hvaða lærdóm við getum dregið af stöðunni nú og í framtíðinni.“

Að erindi loknu verða umræður og þátttakendur í pallborði verða Guðrún Margrét Guðmundsdóttir doktorsnemi í mannfræði, sérfræðingur um konur og kvenréttindi í Arabalöndunum og dr. Þórir Jónsson Hraundal sagnfræðingur, og sérfræðingur í islam.

Allir velkomnir