Þátttakendur eru hvattir til að senda inn punkta um áhugaverð og eftirminnileg atriði

Helgi
Gunnlaugsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ferðin öll var ógleymanleg og margt áhugavert fyrir okkur úr heimi félagsfræða
 
Hápunktur ferðarinnar var líklega heimsóknin í Martin Luther King gagnfræðaskólann og í dómhús New York borgar. Fyrir það fyrsta var það öryggisgæslan í skólanum sem stingur í augu okkar Frónbúa og er hryggilegt að sjá hvað panikin er orðin djúptæk í bandarísku samfélagi. Aðstaða nemenda og kennara í skólanum var síðan eitthvað sem seint yrði samþykkt hér á landi, gluggalausar kennslustofur, þungt loft og mikill gjallandi rétt einsog maður væri staddur í Kringlunni. En síðan kennslan sjálf sem var mjög spennandi, ekki bara efnislega, heldur og ekki síður kennsluhættir og framganga nemenda og kennara. Efnið tengdist réttindum og skyldum einstaklinganna í samfélagi nútímans og var sett fram með virku framlagi nemenda sem urðu að lifa sig inn í málin með margvíslegum hætti td í hópvinnu og með leikrænni tjáningu fyrir framan aðra nemendur og kennara. Afar fróðlegt.
 
Síðan var dómhúsið með aðstoð hins hugumstóra Ástríks alveg sérstakur kapítuli. Að vera leiddur fyrir dómara sem sagði okkur í stuttu máli frá starfi dómsins og svaraði spurningum okkar eiginlega í miðju réttarhaldi er sérstakur bónus. Kristján Guðmundsson spurði dómarann um fækkun glæpa í New York sem svaraði að bragði að fækkun glæpa væri eingöngu bundin við alvarlegri glæpi (felony) en fjölgun hefði hins vegar verið í minna alvarlegum glæpum (glæpir sem fela í sér minna en 1 ár í fangelsi; svokallaðir misdemeanor glæpir). Sem sagt svipuð þróun og á sér stað annars staðar í Bandaríkjunum. Síðan var það rúsinan í pylsuendanum að fá að vera viðstaddur réttarhald í máli nokkurra sem ákærðir voru fyrir morð, auðvitað svartir karlar úr lágstéttum samfélagsins.. Þrefaldi morðinginn var þar minnisstæðastur, hreinn og fínn með bindi og svaraði öllum spurningum kurteislega; spurði td um leyfi til að nota það tungumál sem félagarnir notuðu í þann mund sem þeir hófu skothríðina í íbúðinni þar sem morðin fóru fram! motherfucker etc! Síðan dómarinn sem flissaði yfir öllu saman...enda algjör steypa sem drengurinn kom með, hefði verið þvingaður af félaga sínum til að fremja ódæðið með byssustinginn í bakinu á sér. Segðu mér annan..en athyglisvert að tveir af þeim þremur dómurum sem við fylgdust með voru konur.
 
Margt fleira dettur mér í hug en læt nægja í bili. Verð þó að minnast á hina ágætu heimavistarstemmningu sem myndaðist á hótelinu og sérstaklega samneytið við meyjarnar í næsta nágrenni; þetta verður að endurtaka.

Garðar
Gíslason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 Walking tour through Manhattan
 
Við vorum 8 félagsmenn sem urðum að ,,fórna" okkur vegna plássleysis hjá Flugleiðum og fara út til New York einum degi á undan hópnum (2. júní). Fórnarlömbin voru Björk Þorgeirsdóttir, Garðar Gíslason, Helgi Gunnlaugsson, Jón Ingi Sigurbjörnsson, Margrét Jónsdóttir, Sigurgeir Guðjónsson, Steingerður Hreinsdóttir og Valgerður Halldórsdóttir. Margrét yfirgaf hópinn á JFK flugvellinum og gisti hjá dóttur sinni - en hin héldu beint á  hótel Beacon, rétt við Central Park. Ferðin frá flugvellinum gekk vel, hópurinn allur í einum bíl, bílsstjórinn með afbrigðum skrafhreyfinn og lýsti vel því sem fyrir augu bar á leiðinni inn til Manhattan. Undir leiðsögninni spilaði hann svo gamla slagarann New York með Frank Sinatra.
 
Daginn eftir ákvað hópurinn að fara í smá gönguferð um  Manhattan, enda ekki von á aðalhópnum fyrr en seint um kvöld. Var því lagt upp frá hótelinu um hádegisbil og gengið á víxl eftir 7 breiðgötu eða  Broadway í suðurátt og Hliðargötur  teknar eftir því sem við átti. Margar merkar og háar byggingar urðu á vegi okkar, s.s.  Madison Square en ferðin endaði niður í  Greenwich Village. Síðan var gengið til baka - og þær götur sem urðu útundan teknar í bakaleiðinni. Má því segja að hópurinn hafi verið orðinn nokkuð kunnugur Manhattan eftir daginn, eftir 7 klst. göngu með tveimur stoppum á leiðinni. Merkilegt var að skoða minningarvegg neðarlega á Manhattan, en hann var skreyttur með keramikplöttum sem grunnskólanemendur höfðu búið til í minningu þeirra sem létust í World Trade Center þann 11. september.
 
Sameinuðu þjóðirnar 
 
Þriðjudaginn 4. júní fór hópurinn í heimsókn í  Sameinuðu þjóðirnar og var þar vel tekið á móti okkur. Eftirminnilegast frá þeirri heimsókn var minnjasafn með munum eftir kjarnorkuárásina á Hirosima, skelfileg sjón það. Lítið man ég eftir fyrirlestrinum um  International Criminal Court, enda var ég að sofna undir honum eins og fleiri. Eftir Sameinuðu þjóðirnar fór hópurinn í heimsókn heim til Þorsteins Ingólfssonar, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann býr nokkuð vel við fimmta breiðstræti. Tók hann mjög vel á móti hópnum og flutti fróðlegt og gott erindi um starfsemi íslensku sendinefndarinnar. Einhverjum úr hópnum hafði tekist að versla á milli þessara tveggja heimsókna og keypt sér forláta lampa, án spennubreytis. Er  með ólíkindum hvernig það tókst, því farið var með rútu á milli staða.
 
Pílagrímsferð
 
Hápunktur þriðjudagsins var gönguferð að  Strawberry Fields, en það er minningareitur Yoko Ono um John Lennon og liggur í Central Park. Á leið að minningarreitnum sungu þeir sem eldri voru lög eftir Bítlana eða John, þar á meðal Imagen. Sumir þeirra sem yngri voru hlustuðu á fagran sönginn fullir aðdáunar, enda ekki fæddir þegar Bítlarnir lögðu upp laupana. Eftir stuttan stans við minningarreitinn var gengið að  Dakota byggingunni margumfrægu, en Lennon var eins og flestir vita (og allir í hópnum) skotinn fyrir utan hana 8. desember árið 1980.

Steinar
Almarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vettvangurinn kannaður og mikið að segja frá. Við fórum í margar kynningar og heimsóknir og þetta er afraksturinn af því með þeim fróðleik sem ég hef geymt handa okkur.
 
Alþjóðastjórnmálin
 
Leiðsögnin um ráðstefnubyggingu Sameinuðu þjóðanna var mikil upprifjun og aukinn vísdómur um sögu samtakanna og á alþjóðastjórnmálum. Fundurinn um Alþjóða glæpadómstólinn var að sumra mati mjög áhugaverður og fullur af fróðleik. Ég veit að ekki eru allir sammála þessari fullyrðingu sbr. orð Garðars um dorm fólks á fundinum. Alla vega vöknuðu spurningar á meðal fólks og einhverjar umræður urðu á eftir. Það sem sérfræðingur okkar sagði okkur, fyrir utan það að verða settur í gagnið 1.júlí 2002, var á þá leið að Alþjóða glæpadómstóllinn ætti að vera í líkingu við stríðsglæpadómstólinn sem háður var eftir síðari heimstyrjöldina. Talið er að kominn sé tími á slíkan dómstól á ný vegna þeirrar ógnunar við öryggi heimsins sem stafa af glæpum ýmiskonar. Hér er m.a. vísað til nýlegra þjóðarmorða í Júgóslavíu og Rúanda, en einnig þykir aukning í smygli eiturlyfja vera mikil ógnun við öryggi heimsins. Þar höfum við það. Sameinuðu þjóðirnar vinna að og standa vörð um heimsfrið og öryggi. Ekkert annað. Áfram hélt okkar maður og sagði okkur frá því að dómstóllinn muni vinna með réttarkerfunum í löndum heims en ekki sem einangruð stofnun. Dómstóllinn á hinsvegar að hafa yfirráð yfir ríkjum heims og getur þá sótt þau til saka. Einstaklingar geta einnig verið sóttir til saka og er ekki farið í neitt manngreinarálit í þeim efnum. Það er því hægt að bæði foringja eða undirmann til saka fyrir glæp sem jafnvel báðir frömdu. Þær tegundir glæpa sem hægt er að sækja menn til saka fyrir Alþjóða glæpadómstólinn eru fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi, glæpir gegn mannkyni (hvort heldur er á stríðs- eða friðartímum) og fyrir einhverja tegund glæpa sem ég hef kosið að kalla árásarglæpi. Það er þó ekki alveg búið að skilgreina þessa tegund glæpa, en ég býst við að hér sé átt við árás á óvopnaða og varnarlausa borgara. Saksóknari fyrir dómstólinn er valinn af aðildarríkjum. Saksóknarinn getur unnið á mismunandi vegu:
 
  1. Tekið við beiðnum frá Öryggisráðinu um að rannsókn tiltekið athæfi;
  2. tekið við ákærum; eða
  3. rannsakað mál af eigin frumkvæði. 
Dómstóllinn getur einnig tekið upp á því að rannsaka mál upp á eigin spýtur. Eins og með alla sáttmála, þá þurfja þjóðirnar sem samþykkja sáttmálann um Alþjóða glæpadómstólinn að aðlaga sáttmálann að löggjöf sinni. Í stuttu máli, þá er tilgangur Alþjóða glæpadómstóls fram yfir aðra að dæma í málum sem ógna friði og öryggi í heiminum. Höfuðstöðvar dómstólsins verða í Haag í Hollandi, en það kemur engum á óvart þar sem fyrir er þar allt lagabákn heimsins niðurkomið.
 
Réttarfarsskólun
 
 Heimsóknin í  Martin Luther King Junior High School var að allra mati mjög skemmtileg. Ég held ég geti fyrir allra hönd fullyrt það þrátt fyrir að þurfa að fara í gegnum stranga vopnaleit og sýna skilríki við innganginn. Okkur var sagt frá tilurð skólans sem tengist stefnu borgarstjórnar New York borgar að mennta fólk í lökustu hverfum borgarinnar til að brjóta upp vítahring menntunarleysis í þessum hverfum. Krakkarnir ferðast því upp undir klukkustund til eina og hálfa í skólann á einn besta stað á Manhattan til að mennta sig á kostnað borgarsjóðs og fá ferðirnar til og frá skóla einnig greiddar. Fyrir vikið eru hverfin sem þau búa í að batna og fólkið að bæta kjör sín og umhverfi. Við í hóp C fórum í tvær mjög skemmtilegar kennslustundir hjá Miss Lowenfels annars vegar og hjá Mr. O´Brien hins vegar. Í fyrri kennslustundinni var áberandi var hvað hinir ungu nemendur voru opnir og tilbúnir að tjá sig um þjóðfélagsmálin út frá skopmyndum dagblaðanna. Í síðari kennslustundinni fengum við að hlusta á tilbúin réttarhöld og í lok tímans að dæma í málinu sem kviðdómendur værum, en kennslustofan var sett byggð líkt og réttarsalur. Ekki má gleyma því að þær Debra rektor og Susana konrektor sögðu okkur frá námskránni sem farið er eftir og gerð af samtökunum Justice Resource Center sem reka skólann.
 
Innflytjendamál
 
Við fórum út í Elliseyju og skoðuðum  Innflytjendasafnið. Við höfum öll góðar minningar af þessari frábæru ferð þó sumir hafi þurft að taka af sér beltin í öryggisskyni áður en lagt var af stað í siglinguna á áfangastaðinn. Á leiðinni var Frelsisstyttan skoðuð úr fjarska, og eins og gamli aulabrandarinn segir þá er hún fjarskafalleg. Hún var hins vegar lokuð og ekkert spennandi af þeim sökum. Síðan komum við að Innflytjendasafninu þar sem hann Vincent með ítalska eftirnafnið sýndi okkur hátt og lágt um staðinn þar sem tekið var á móti innflytjendum til Bandaríkjanna um aldamótin 1900. Hér er áhugaverð tölfræði: Fimmþúsund manns komu á ári til Bandaríkjanna á síðustu árum átjándu aldar. Í upphafi tuttugustu aldar var álíka fjöldi að koma á Elliseyju á dag! Metið var ellefuþúsund sjöhundruð fjörutíu og sjö manns sem komu á eyjuna sautjánda apríl 1907, en allt í allt er talið að um tólf milljónir innflytjenda hafið komið til Bandaríkjanna í gegnum Elliseyju. Elliseyja er reyndar gömul herstöð frá upphafi nítjándu aldar sem var gerð að innflytjendamiðstöð í upphafi árs 1892 til að stjórna hinum gríðarlega innflytjendastraum til Bandaríkjanna. Skilyrðin sem innflytjendurnir þurftu að uppfylla voru að vera heilsuhraustir og geta unnið, annars áttu þeir ekkert erindi til landsins að mati þeirra sem fyrir voru og stjórnuðu landinu. Það gleymist oft að Ameríkanar eru allir innflytjendur frá einhverjum tíma. Starfsemin á Elliseyju lagðist alveg niður árið 1954, en hafði verið í lágdeyfðinni frá því í fyrri heimsstyrjöldinni og að mestu notað sem fangelsi fyrir óvini í stríðunum tveimur sem reyndu að setjast að. Eyjan er í dag aðeins safn á eyju sem er mikið til uppfylling af efni sem var tekið þegar lestarkerfi New York borgar var lagt í lok nítjándu aldar.
 
Málefni indíána
 
Farið var hið eftirsótta  Indíánasafn niður í bæ. Það var lítið miðað við flest önnur söfn í New York og ekkert að sjá nema myndir. Þar var hinsvegar að sjá myndir af msimunandi aðstæðum indíána í norðri og suðri. Fjölbreytileiki þeirra er meiri en við áttum okkur oft á. Annað fræðandi af safnsferðinni voru hvernig afskipti hvíta mannsins voru af lífi þeirra. Menn skiptust í tvær öfgar hvað afstöðu til þeirra varðar. Annars vegar litu menn á indíánana sem algera villimenn og hins vegar sem mjög göfugt fólk sem vissi allt miklu betur en hvíti maðurinn. Nú á dögum eru menn að leita jafnvægis í þessum málum. Það er Smithsonian-stofnunin sem sér um að varðveita menningarverðmæti og sögu indíánanna í Bandaríkjunum og er sýningin að fullu gerð af þeirri stofnun.