Gagnlegar upplýsingar

Umsjónarmaður námskeiðsins er Björk Þorgeirsdóttir, bjorkth@kvenno.is 
Stjórn félagsins ásamt Maríu Hjálmtýsdóttur í MK sér um að skipuleggja námskeiðið. 
Tengiliður okkar í Havana er Néstor Mesa Flores, Universidad de la Habana
 
CUBA -tips - La Habana og nágrenni

Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga. María sendi þessa punkta á póstlista félagsins í lok janúar 2017. 
Gott/nauðsynlegt að taka með sér:

Pappírsþurrkupakka, það eru klósettkellingar alls staðar sem rétta manni pappír (ef hann er þá til) og engar setur né pappír á klósettum nema á allra fínustu veitingahúsum/hótelum. Tók heilt “karton” með mér og það kláraðist næstum allt.
Passlegt er að borga klósettkellingunum 25-50 aura þó sumar heimti heila cuc-u.

Sótthreinsisprey eða -blautþurrkur, ekki alltaf sápa á klósettum heldur

Immodium pillur til öryggis ef fólk fær í magann og fínt að taka acidophilus fyrir og á meðan, við tókum probiotics travel pills. Herbergisfélagi minn, eldri og vitrari kennslukona, tók með sér gammeldansk sem við tókum fyrir morgunmat og svefn daglega. Það hefur eflaust gert eitthvað gagn :)

MOSKÍTÓVÖRN! Ekki svo mikið inni í Habana en vorum mjög bitin í sveitunum og það er bara ekki skemmtilegt og mjög ófallegt líka :) Velja alvöru, því “organic/natural” virkar sko ekkert á kúbverskar flugur, deet 30-50 takk!

Það eru ekki supermarkaðir á hverju strái né sjoppur þannig að þegar maður er svangur verður maður einfaldlega að setjast inn á veitingastað/kaffihús. Fínt er að hafa með sér hnetu- /orkustangir þegar maður hefur ekki tíma í svoleiðis.
Miðborg Havana skiptist í 3 hluta:
HABANA VIEJA, gamli bærinn þar sem eru mörg hótel, söfn og veitingahús, mikið um að fólk reyni eitthvað að selja manni og hljómsveitir ganga milli borða og syngja. Fínt er að passa að hafa alltaf slatta af klinki til að gefa tónlistarfólki og klósettkellingum. 
Hérna koma nokkrir veitingastaðir í gamla bænum. Almennt séð mæli ég ekki með að kaupa salat neins staðar á Kúbu þó það sé á matseðli. Lang oftast mjög óspennandi og/eða ekki með helmingnum af innihaldsefnum sem talin voru upp. Þeir troða líka oft einverjum vondum dósabaunum í salötin. Svínakjöt, kjúklingur og sjávarréttir almennt góðir (þó sumir vari við sjávarréttum vegna hættu á magaveseni) með fáum undantekningum, steiktir bananar og rótargrænmetið þeirra. Mesta lífið er í kringum torgin 3 og á/kringum Calle Mercaderes og Calle Obispo.
Nao - frábær veitingastaður með undantekningarlaust góðum mat og þjónustu, miðlungsfínn. Rosagott “ropa vieja” þar, svo er líka hægt að sitja úti í þægilega skuggsælu porti með fíneríis kokkteil. Þarna er oftast lifandi músik og það í betri kantinum. Nao er milli Plaza de Armas og hafsins, í síðasta hluta Obispo-götu (s.s. Obispo endar á torginu en heldur áfram hinum megin) þar eru oft ljósaseríur yfir þröngt portið sem vísa á staðinn.
La mina er staður á Plaza de Armas, grænt skilti. Vel talað um matinn og frábær staðsetning
Á öðru fallegu torgi Plaza de la Catedral er einn veitingastaður, fínir sjávarréttir og ekkert sérstaklega dýr
Í lítilli götu út frá dómkirkjutorginu (San Ignacio No 58- A milli O´Reilly y Empedrado, Callejón del Chorro) eru 2-3 staðir, ef þið eruð komin með nóg týpískum kúbverskum þá er gott að fá sér hádegismat á litla staðnum Esto no es un café sem er með fín útiborð, býr til snyrtilegan og góðan fransk-spænsk-ítalskan mat. Guðdómlegt crepes þar með ís og rommi í eftirrétt og gott kaffi. (eru með facebook-síðu)
Skemmtilegur staður er líka La imprenta á Calle Mercaderes. Hressileg þjónusta og smart staður, fínt að skreppa þar líka í hádegismat. https://www.facebook.com/laimprentacuba/?fref=ts
Paladar los Mercaderes (207 Calle Mercaderes) mjög rómó og fínn staður í aðeins hærri klassa (eigum von á mikilli rómantík í ferðinni :-)  
Mælt var með staðnum Mamá Inés, á Obrapía-götu held ég, nálægt Mercaderes.
Á Plaza Vieja (sem hét áður eitthvað annað) er kaffihús með góðu kaffi, brugghús með bjór í röri og miklu fjöri alltaf, ásamt 2-3 veitingastöðum og einhverjum búðum.
 
VEDADO - hverfið
Nálægt háskólanum. Hótelið (mitt = sú sem sendi Maríu þessar upplýsingar) var Hotel Presidente sem var með frábæra sundlaug og morgunmat en herbergin mjög þreytt og mikil fúkkalykt. Ef þið gistið í Habana vieja (engin hótel þar með sundlaug held ég) og langar í sund (sem er nánast nauðsynlegt ef eð heiðskírt allan daginn) er mögulega hægt að borga til að nota sundlaugargarðinn hér sem er rólegur og fallegur með frábæra kokkteila eða á hinum mun stærra Melia Habana sem er ekki langt frá. Ef þið eruð stödd nálægt Presidente á matartíma er þar ágætis veitingastaður og skemmtileg verönd.
Fín tilbreyting er að borða í Vedado ef þið eruð lengi því það er miklu rólegra og maður er kannski kominn með ágætt af hljómsveitum syngjandi ofaní manni stanslaust og vill bara tala saman :)
El idilio - Æðislegur staður, kokkarnir grilla frammi í borðsal sem er hálfvegis undir beru lofti, góð þjónusta og heimilislegur staður. Vorum 11 að borða þarna og allir hæstánægðir með allt. Þurftum að bíða í klst hann var svo vinsæll þannig að kannski fínt að panta borð. Fínt að sitja á útisvæðinu ef er gott veður því hitnar svo “inni” af grillinu. Hann er staðsettur á Calle G 351 (stóra breiðgatan sem gengur almennt undir nafninu Avenida de los Presidentes) á horni 15.
Versus 1900 Ofsalega fallegt gamalt hús sem hefur verið gert virkilega smekklega upp. Ofursmart og góðir kokkteilar og svolítið fancy þó á svipuðu verði og mid-range staðir annars staðar. Rosafalleg terraza og á þakinu er bar og eitthvað djammerí á kvöldin. Þurftum að bíða ROSA lengi eftir matnum þegar við átum þar en 70% var rosalega ánægð með matinn, m.a. Ég sem fékk geggjað góða kanínusteik með chorizo. Ekki kaupa salat hér, það var voðalegt og eiginlega ekkert nema salatblöð :)
Hér er adressan og myndir á fb-síðunni https://www.facebook.com/Versus-1900-725722794238225/?fref=ts
Algjör skylda er að fá sér drykk á góðviðrisdegi á hinu stórkostlega gamla mafíósahóteli Hotel Nacional. Á terrözunni úti er frábært útsýni yfir Malecón-inn og hafið. Það er auðvitað hægt að borða þar en ég get ímyndað mér að það kosti sitt :)
Steinliggur að heimsækja Café Laurent  eftir eftirmiðdagskokkteilinn. Þar er virkilega fallegur borðsalur, útsýni og góð þjónusta, þó svo að fólk hafi verið misjafnlega ánægt með matinn (ofeldaðir sjávarréttir) en meirihluti mjög sáttur. Adressa: Calle M # 257 penthouse e/21 y 19
Nálægt háskólanum er fræga ísbúðin Coppelia, virkilega góður ís, LÖNG röð fyrir nativos en túristar með túristagjaldmiðil fá einhverja sérmeðferð :/ Virkilega góður ís!
1830 er frábær salsastaður með live-bandi og svakagóðum dönsurum. Frábært bara að horfa á þau :) Undir beru lofti við sjóinn, rosafallegt. Miðlungsgóður matur og lélegir kokkteilar. Það eru líka tveir live-dansstaðir, Casa de la Música, annar í Miramar hverfi en hinn í Centro-Habana. Sá síðarnefndi segja þeir að sé svalari.
Þriðji bæjarhlutinn: CENTRO HABANA
Þar er hins vegar mælt mjög með veitingastöðunum La Guarida og San Cristóbal (dýr sýndist mér), Þar kom ég á stórt og flott torg Parque Central og át hádegismat á terrözunni á Hotel Inglaterra sem var góður people-watching staður og bara indæll. Þar við hliðina á byrjar líka bulevar-inn þeirra, búðagatan.
Aðrir punktar:

  • ef tekinn er leigubíll ætti að kosta 10 cuc milli hverfa, ef yfir 2 hverfi: 20 etc. Gömlu kaggarnir setja upp mismunandi verð, endilega spyrja fyrir far hvað það kostar og bara neita ef þeir setja of dýrt upp.
  • best er að koma með cash (evrur eða kanadadollar) oft virka hraðbankar ekki eða eru peningalausir. Það er hægt að taka út á korti og skipta peningum í CADECA (casa de cambio) sem eru á mörgum stöðum. Ef þið lendið í að þurfa að taka út á skrýtnum tímum er til dæmis opið á sunnudögum og fram á kvöld á hótelinu Melia Habana.
  • athyglisverðasta safnið var án efa Bellas Artes safnið með innlendri list (fór reyndar ekki á internacional-safnið). Næstum skylda að fara líka á Byltingarsafnið, þó það sé orðið frekar þreytt og gott sennilega að hafa leiðsögumann. Rommsafnið var algjört blaaah og lítið merkilegt vægast sagt.
  • við hliðina á rommsafninu er sögulegur bar Dos Hermanos sem alls konar frægt lið hékk á, og rétt þar hjá við sjóinn fara “lanchas” s.s. Bátar yfir til Casablanca (þar sem kristsstyttan og virkin 2 eru) og líka til Regla (þorp þar sem margir trúa á santería og hefur sögufræga pílagrímakirkju þangað sem fólk kemur að skoða svarta meyju). Þegar komið er tilbaka er upplagt að rölta eftir sjónum að stóru vöruhúsunum því það næsta er nýuppgert og inniheldur brugghús og stóran skemmtistað með þessum skemmtilegu bjórrörum Cervecería Antiguo Almacén ...
  • það er æðislegt að fara í dagsferð til Soroa þar sem hægt er að baða sig í á og fossi og er yndislegur orkídeugarður (sem inniheldur þó ekki bara orkídeur). Þar rétt hjá er sæta þorpið Terrazas
  • túristalegt en mjög skemmtilegt er að fara á Buena Vista Social Club show, þetta er ekki hljómsveitin en mjög góðir hljóðfæraleikarar og skemmtilegir gamlingjar að syngja. Matur lala en við fengum út á hann bestu sæti í bænum.
  • Ef þið farið til Varadero er Hotel Blau Varadero alveg fullkomið, smekklegt, frábær sundlaug og góður matur. Ekki ódýrt (fengum þetta á einhverjum smá off-season afslætti) en það er fljótt að safnast saman það sem maður borðar í hádegis- og kvöldmat ásamt drykkjum þannig að þetta kemur á sama stað niður þar sem þetta er all inclusive.
  • Í Cienfuegos er fullt af æðislegri heimagistingu í fallegu húsunum þar og mælum við með Casa Blanca þar hjá honum José og familíu, frábærlega staðsett (skal finna upplýsingar ef þarf, er með adressu/nafnspjald heima) . Æðislegt að borða á Finca del Mar og fín sundlaug sem maður getur borgað til að fara í á Hotel Jagua. Þar á móti er kostuleg márastílleg bygging sem gaman er að fá sér drykk uppi á terrözu og pottþétt gaman að borða líka.
  • Í Trinidad er skylda að fá sér drykk á tröppunum hjá Casa de la Música (með öllum hinum túristunum) og fá sér góðan göngutúr um þorpið (og nágrenni ef tími)