Er það í anda "Enn betri skóla" að minnka stærðfræðina
Björn Bergsson, deildarstjóri félagsfræðideildar Menntaskólans við Hamrahlíð:
Er það í anda "Enn betri skóla" að minnka stærðfræðina á félagsfræðibraut framhaldsskólans?
Grein þessi er byggð á erindi sem höfundur flutti hjá Fleti, samtökum stærðfræðikennara, þann 4. maí 1998.
1. Viðbrögð við stefnumótaplaggi.
2. Hugmyndir kennara í félagsfræðideild MH um breytingar á uppbyggingu brautarinnar.
3. Til hvers stærðfræði á félagsfræðabraut?
4. Orlofsárið.
5. Ekki uppgjöf heldur endurskoðun á stærðfræði sem námsgrein á félagsfræðabraut...
6. Lokaorð.
1. Viðbrögð við stefnumótaplaggi
Ég vil hefja mál mitt með því að þakka það tækifæri að fá að tjá mig um fyrirhugaðar breytingar á félagsfræðabraut framhaldsskólans. Ég hef um árabil kennt bæði félagsfræði og stærðfræði við MH. Reyndar hóf ég kennsluferil minn við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum þar sem ég kenndi aðalega stærðfræði. Auk þess hef ég kennt félagsfræði og stærðfræði við framhaldsskóann í Vestmannaeyjum og IR. En áður en ég fer að ræða þessar fyirihuguðu breytingar sem lýst er í stefnumótaplaggi Menntamálaráðuneytisins ætla ég að lýsa því hvernig ég nota tölvur við kennslu félagfræði við MH.
Í fyrsta lagi læt ég nemendur mína vinna í hópum með forritin WORD og EXCEL þ.e.a.s. þegar nemendur í félagsfræðiáfanganum FÉL 103 vinna að skýrslu eða nemendur í FÉL 203 vinna að nemendafyrirlestri. Sumir nemendur afla sér heimilda á netinu m.a. tölfræðilegra upplýsinga sem oft er fyrsta skrefið í þessari verkefnavinnu.
Í öðru lagi gera nemendur í FÉL 303 eigin könnun. Fyrir tveimur árum breytti ég þessum áfanga í rannsóknartengdan áfanga. Rökin fyrir þeirri breytingu eru að ég tel útilokað að gefa nemendum merkingarbæra innsýn í félagsfræði sem vísindagrein (þetta gildir reyndar um félagsvísindagreinarnar sem heild) nema þeir geri eigin rannsókn og upplifi sig sem "vísindamenn" í félagfræði.
Það væri ekki framkvæmanlegt að láta þau undirbúa, framkvæma, vinna úr niðurstöðum slíkrar könnunar og túlka þær á 13 kennsluvikum ef félagsfræðadeild hefði ekki keypt forritið "SPÖRGE" af dönskum framhaldsskólakennara sem gerir nemendum mínum fært að vinna úr gögnum könnunarinnar á mjög fljótlegan hátt.
Ég þýði svo gögnin úr "SPÖRGE" yfir í EXCEL. Það gerði nemendum mínum kleyft að reikna út fylgni milli tveggja spurninga (eins og gert er í alvöru könnun s.s fylgni milli kyns og stuðningsmanna R-listans) og eins gat ég þar með farið með gögnin yfir í SPSS-forrit og reiknað út eitt og annað með aðfallsgreiningu eins og gert er í "alvöru" rannsóknum. Það er reyndar meira til gamans gert en að við tökum niðurstöður þeirra útreikninga mjög alvarlega. Nemendur í FÉL 303 skila lokaniðurstöðum könnunar sinnar á veggspjaldi með tilheyrandi línuritum og gröfum, sem við hengjum svo upp fyrir framan félagsfræðistofu skólans.
Þessi upptalning er ekki til þess ætluð að vera skrautsýning á kennslu minni í MH heldur er sagt frá þessu hér til þess að útskýra það viðhorf mitt að ef minnka á stærðfræði á félagsfræðabraut eins og ætlunin er að gera þá sé í raun verið að vinna skemmdarverk á þessari námsleið innan framhaldsskólans. Tekið skal fram strax í upphafi máls míns að þegar ég ræði um félagsfræðabraut gegn ég út frá því að hún sé ein þeirra bóknámsbrauta framhaldsskólans sem ljúka með stúdentsprófi.
Mér er sagt að eitt af markmiðum Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra með nýrri námskár fyrir grunn- og framhaldsskóla sé að draga úr brottfalli nemenda úr framhaldsskólanum. Minni stærðfræði á félagsfræðabraut þýðir í reynd að verið er að gera félagsfræðabraut að "Aulabraut". Nemendur sem útskirfast af henni fá eins konar B- útgáfu af stúdentsprófi. Þeir fá vissulega húfu, veislu, kökur og gjafir en það verða ekki margar námsleiðir opnar fyrir þá á háskólastiginu. Ég tel ljóst að nemendur sem útskrifuðust af slíkri braut geta ekki stundað það nám á háskólastigi sem nemendur af félagsfræðabraut geta stundað í dag og þess vegna tala ég um skemmdarverk. Auk þess þýðir minni stærðfræði á brautinni að stærðfræði verður ekki hjáplargrein við grunngreinar brautarinnar s.s. félagsfræði og sálfræði. Ef koma ætti til móts við "þarfir" þess hóps nemenda framhaldsskólans sem ekki geta nýtt sér þær bóknámsbrautir sem þegar er í boði þarf að huga að fleiru en stærðfræðinni s.s. þriðja erlenda tungumálinu. Einhverjir nemendur koma af málabraut yfir á félagsfræðabraut til að losna við tungumál alveg eins og einhverjir koma af náttúrufræðabraut til að forðast stærðfræði og raungreinar.
Til að greiða fyrir því að fleiri nemendur ljúki fjögra ára námi úr framhaldsskóla en nú er væri skynsamlegra að mínu mati að búa til nýja bóknámsbraut sem gæti t.d. heitið framhaldsskólabraut þar sem einungis væri gert ráð fyrir 6 einingum í stærðfræði í kjarna. Hvaða réttindi hún veitti til náms eða hvaða nám nemendur af slíkri braut ráða við að stunda á háskólastiginu hér á landi (ef það skiptir þá máli) yrði væntanlega að koma í ljós.
2. Hugmyndir kennara í félagsfræðideild MH um uppbyggingu brautarinnar.
Viðbrögð mín má líka skýra í ljósi þess að við sex faggreinakennarar sem kenna við deildina vorum með hugmyndir sem stefna í gagnstæða átt við þessar fyrirhuguðu breytingar í stefnumótaplagginu. Við höfum verið þeirrar skoðunar frá því að gerð var tilraun til að breyta áfangakerfi MH 1991 að gera þurfi breytingar á uppbyggingu brautarinnar sem fela í sér bæði að stærðfræðin er aukin og einnig að gerðar verði auknar kröfur til nemenda í grunngrein línunnar sem þeir eru á þ.e.a.s. félagsfræðilínu eða sálfræðilínu, sbr. umræðuna um framhaldsáfangann FÉL4S3/SÁL4S3 hér á eftir.
Ég vil rifja hér upp að markmiðið með fyrirhuguðum breytingum á áfangakerfi MH 1991 var m.a. að auka ábyrgð nemenda á eigin námi í skólanum og jafnframt að gefa þeim meira svigrúm við að ákvarða samsetningu eigin náms. Þannig var frjálsum námseingingum sem hvorki voru eyrnarmerktar kjarna eða kjörsviði auknar úr 10 - 15 í 30 - 35 (misjafnt eftir námsbrautum skólans).Þannig að tiltekinn nemandi átti að geta styrkt stöðu sína gangvart tiltekunum kröfum á háskólastiginu.
Hugmyndir okkar "sexmenninganna" eru annars vegar að auka stærðfræðina á brautinni . Núna taka nemendur 15 einingar í stærðfræði þar af 3 einingar í tölfræði þ.e.a.s. áfangann TÖL 413. Við viljum búa til framhaldsáfanga í tölfræði t.d. TÖL 513. Til greina kæmi að við kenndum STÆ 513 sjálf og þá í tengslum við raunveruleg verkefni eða með því að nota gagnasöfn úr rannsóknum. Nemendur færu ekki í FÉL 303 eða SÁL 303 fyrr en þeir væru búnir með báða þessa áfanga. Þar sem við látum nemendur okkar gera eigin könnun í FÉL 303 og SÁL 303 finnst mér augljóst að nemendur þurfi að kunna töluvert í tölfræði til að geta unnið úr gögnunum.
Tölfærðin á ekki bara að vera hjálpargrein grunngreinar brautarinnar til að auðvelda nemendum okkar að gera eigin rannsókn. Hún verður einnig að vera merkingarbær fyrir þá þegar þeir reikna t.d. út fylgni milli tveggja spurninga eða vikmörk til þess að geta sagt til um hvort um marktækan mun er að ræða milli svarmögueika tiltekinnar spurningar. Ég kem betur að þessum þætti á eftir þegar ég ræði um stærðfræðina á brautinni.
Hins vegar vildum við búa til nýjan "lokaáfanga" í félagsfræði eða sálfræði (eftir því hvort nemandinn er á félagsfræðilínu eða sálfræðilínu) FÉL 4S3 eða SÁL4S3 . Þetta væri mjög sjálfstæður áfangi þar sem nemendur vinna að eigin rannsókn undir handleiðslu kennara sem hitta nemendur einu sinni í viku. Við teljum að slík sjálfstæð vinna væri góður undirbúningur undir nám á háskólastigi. Rökin fyrir þessu eru m.a. þau að á náttúrufræðibraut er yfirlitsáfangi stærðfræði í lok náms og nemendur þreyta 3 klst. próf sem undirbúning undir nám í raungreinum á háskólastigi. Við teljum ekki mögulegt að vera með þriggja tíma lokapróf úr námsefni félagsfræðinnar eða sálfræðinnar og því væri rétt að búa okkar nemendur undir háskólanám með því að láta þá vinna mjög sjálfstætt og temja sér þar með þá ögun sem þarf til að stunda nám á háskólastigi.
3. Til hvers er stærðfræðin á félagsfræðabraut?
Við sem kennum á félagsfræðabraut í MH vitum að fæstir nemenda okkar fara í félagsfræði sem slíka upp í H.Í. Margir fara í sálfræði eða stjórnmálafræði og einhverjir hafa farið í mannfræði. Eflaust eru það einhverjir nemendur okkar eins og nemendur annarra bóknámsbrauta sem ekki fara í hálskólanám að því námi loknu. Margir kollegar mínir benda auk þess á að nemendur brautarinnar sem fara í háskólanám fara í KHÍ eða greinar eins og lögfræði, guðfærði, heimspekigreinar . Þessir kennarar spyrja hvað tilvonandi guðfræðingar, málakennarar og lögfræðingar hafi að gera með að læra mikla stærðfræði í framhaldsskólanum. Reyndar eru það þrjár deildir innan HÍ þar sem ekki er krafist stærðfræði þ.e.a.s. heimspekideildin, guðfræðideildin og lögfræðideildin.
Benda má á að H.Í. er eini skólinn á háskólastigi hér á landi sem þarf að taka við nemendum með stúdentspróf, hinir skólarnir geta valið úr umsækjendum. Þessi staðreynd þýðir í mínum huga að það er aðeins tímspurning hvenær Háskóli Íslands tekur annað hvort upp inntökupróf eða krefst þess að nemendur sem sækja um inngöngu hafi þreytt samræmt stúdentspróf í tilteknum greinum til að sýna fram á að þeir ráði við hugsanlegt nám í skólanum. Menn geta ímyndað sér hvernig nemendur af "breyttri" félagsfræðabraut stæðu sig í samræmdu stúdentsprófi í stærðfræði með aðeins 6 námseiningar að baki. Hér förum við nú að nálgast það sem mér finnst vera kjarni málsins þ.e.a.s. til hvers er félagsfræðabrautin þ.e.a.s. hvaða nám á háskólastigi eiga nemendur okkar að geta stundað eða hvaða nám á háskólastigi fá þeir að stunda?
Starfsmenn ráðuneytisins hafa upplýst að gengið væri út frá því að ólíkar stúdentsprófsbrautir veittu ólík réttindi til framhaldsnáms. Verið að gera nám á einstökum brautum markvissara og fjölbreyttara. Námsframboð mun aukast verulega og þannig verður leitast við að koma til móts við þarfir nemenda sem eru ólíkar og mismiklar. Kröfur um 6 einingar í stærðfræði í kjarna brautarinnar sé lágmarkskrafa. Við bætist sú stærðfræði sem verður inn á kjörsviðum brautarinnar, sem er allt frá 9-18 eininga.
Við erum þó nokkuð margir kennarar við félagsfræðabraut framhaldsskólans sem finnst það vera hlutverk okkar að búa nemendur okkar undir nám í einhverri félagsvísindagrein á háskólastiginu. Persónulega óttast ég að Félagsvísindadeild H.Í. komi til með að krefjast prófs af náttúrufræðibraut sem lágmarks undirbúnings fyrir deildina. Það stendur reyndar í bæklingi frá H. Í. um undirbúning fyrir nám í Félagsvísindadeild að æskilegt sé að nemendur hafi 18 – 21 einingu í stærðfærði til að þeim nýtist námið sem best. Mér finnst ótrúlegt að Félagsvísindadeild HI muni breyta þessu viðhorfi sínu til mikilvægis stærðfræðinnar frá því sem nú er. Ég er sammála þessu viðhorfi og tel að nemendur af félagsfræðabraut geti ekki stundað nám í a.m..k. félagsfræði eða sálfræði við deildina nema þeir taki 12 -15 einingar af kjörsviðs kvótanum til að bæta stöðu sína gagnvart stærðfræðinni.
Í þessari umræðu um fjölda námseininga í stærðfræði á félagsfræðabraut hafi kollegar mínir sem eru ósammála mér um mikilvægi stærðfræðinnar á brautinni spurt. "þurfum við að leita til stærðfræðikennara til að finna út hvaða nemendur hafa hæfileika til rökhugsunar og hverjir ekki?" Vissulega hefur stærðfræði ekki einkarétt á því að efla rökhugsun hjá nemendum okkar enda lít ég svo á að þessir nemendur séu yfirleitt ekki miklir áhugamenn um stærðfræði. Hins vegar hef ég bent á þá staðreynd að "afi" félagsfræðinnar sjálfur Emil Durkheim hafi í rannsókn sinni á sjálfsvígum stuðst við tölfræðina. Þannig að í mínum huga eru tengsl tölfræði og félagsfræði "söguleg" staðreynd.
Önnur röksemd þessara kollega minna er að, nemendur sem eru búnir að taka a.m.k. tólf einingar í stærðfræði kunna þrátt fyirr það ekki að reikna út jafn einfalda hluti og prófsentur. Mikið magn stærðfræði eykur því ekki endilega skilning þeirra á stærðfræði. Ég get verið sammála því að fjöldi eininga sem nemandi er búinn að taka í stærðfræði tryggir ekki endilega að hann hafi lært stærðfræðina að nokkru gagni. Sem dæmi má taka Gunnar Pál (ég er hér með tilbúin nöfn á nemendum til að tryggja nafnleynd) sem er á náttúrufræðibraut og fær alltaf 5 í einkunn á lokaprófi í stærðfræði. Þótt hann sé búinn að taka 21 námseiningu í stærðfræði kann hann minna í stærðfræði að mínu mati en Heiða Björg af málabraut sem fær alltaf 8 í stærðfræði en hefur ekki lokið nema 12 námseiningum og það í "léttari" stærðfræði en Gunnar Páll. Heiða Björg hefur lært til skilnings en Gunnar Páll ekki.
Sumir hafa lagt til að nemendur á félagsfræðabraut læri tölfræðina strax og þurfi þar með ekki svo margar námseiningar í stærðfræði. Persónulega er ég því mjög ósammála að byrja strax á tölfræðini. Reynsla mín (sem ég gat um í upphafi máls míns) af því að kenna stærðfræði segir mér að fyrst þurfi þessir nemendur að fá almennan og góðan grunn í stærðfræðinni. Við skulum ekki gleyma því að oft eru þetta nemendur sem hafa misst tökin á stærðfræðinni þegar algebran kom inn í námsefnið í efstu bekkjum grunnskólans. Í mínum huga er tölfræðin mjög abstrakt þótt hún líti ekki út fyrir að vera það. þess vegna þurfa þessir nemendur að bæta grunninn í stærðfræðinni svo tölfræðin verði merkingarbær fyrir þá.
Ég tek sem dæmi reynslu mín af því að kenna áfangann FÉL 303. Eins og ég gat um í upphafi gera nemendur þar eigin könnun. Ég held fyrirlestra sem eru hugsaðir til að hjálpa þeim að vinna það verk. Einn slíkur fjallar um tölfræðihugtakið fylgni. Þar er ég með að mínu mati með góðar glærur og tek vel valin dæmi máli mínu til skyringar. Á s.l. haustönn taldi ég að mér hefði tekist óvenju vel til með fyrirlesturinn því þau spurðu ekki mikið á meðan á honum stóð, sem þau eiga nú til alla jafnan. Í næsta tíma á eftir fórum við svo inn í tölvustofu og unnum með gögn sem ég hafði sett inn á netið svo þau gætu sjálf reiknað út fylgni. Þar á eftir áttu þau svo að reikna út fylgni úr eigin gögnum. Hálfum mánuði seinna erum við svo aftur stödd inn í tölvustofu. þá kemur einn nemandi til mín og segir:"Heyrðu Björn, hvað er þessi fylgni sem þú ert alltaf að tala um?". Þannig að ekki hafði fyrirlestur minn hjálpað honum að skilja þetta fyrirbæri fylgni.
4. Orlofsárið.
Skólaárið 1994 – 1995 fékk ég orlof og nýtti það til að stunda MA-nám við Félagsvísindadeild HÍ. Ég fór m.a. í aðferðafræði II á haustönn og valáfanga í aðferðafræði. Á vorönninni fór ég svo m.a. í aðferðafræði III . Af reynslu minni af náminu í þessu áföngum og einnig vegna spjall míns við fyrrverandi nemendur mína úr HM sem voru með mér í þessum áföngum er mér ljóst að til þess að nemendur ráði við aðferðafræðina þurfa þeir að hafa góðan grunn í stærðfræði. Þetta kom reyndar líka fram í könnun sem ég gerði meðal fyrsta árs og þriðja árs nemenda Félagsvísindadeildar H.I. varðandi viðhorf til námsins á félagsfræðabraut framhaldsskóla og mat á eigin undirbúningi fyrir núverandi nám. Helstu niðurstöður hennar hvað varðar stærðfræðina var að nemendur telja undirbúning í stærðfræði og tölfræði skipta mestu máli varðandi námsgengi við deildina.
5. Ekki uppgjöf heldur endurskoðun á stærðfræði sem námsgrein á félagsfræðabraut framhaldsskólans.
Einn skólastjórnandi hér í Reykjavík (ég tek það fram að hann starfar ekki við MH) svaraði mér þannig , þegar ég ræddi þessi mál við hann, og sagðist hafa það eftir deildarstjóra sínum í stærðfræði að það fást ekki hæfir kennarar til að kenna "þessu liði" stærðfræði þ.e.a.s. þeim nemendum sem velja málabraut eða félagsfræðabraut. Mér átti að skiljast að þetta væri svo slappt lið að enginn metnaðarfullur stærðfræðikennari vildi eyða tíma sínum í slíka nemendur. Ég vil taka það fram hér að ég hef um árabil kennt stærðfræðiáfangann STÆ363 í MH en sá áfangi er fyrsti stærðfræðiáfangi sem nemendur þessara brautar velja eftir skylduáfangana STÆ103 og STÆ 203. Af reynslu minni af stærðfræðikennslu er ég ekki þeirrar skoðunar að það sé greindarskortur sem hamli því að nemendur þessarar bauta a.m.k. í MH ráði ekki við námið í stærðfræðinni.
Ég hef um nokkurt skeið látið nemendur mína í STÆ 363 skrifa mér bréf í upphafi annar um reynslu sína af stærðfræðinni og viðhorf til þeirrar vinnu sem framundan er. Nemendur mínir virðast yfirleitt vera mjög ánægðir með stærðfræðina sem námsgrein til að byrja með í grunnskólanum. Áfallið verður annað hvort í efstu bekkjum grunnskólans þegar algebran er kynnt til sögunnar eða við skilin á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Einn nemandinn minn á s.l. önn lýsti fyrstu kynnum sínum af algebrunni sem áfalli. Hún sagðist hafa farið að trúa því að hún sem hefði verið svo góð í stærðfræði, aldrei fengið lægri einkunn en 8 og upp í 10, ætti aldrei eftir að skilja þetta fyrirbæri. Þessi nemandi minn lauk STÆ 363 með mjög góðri einkunn. En hún þurfti að leggja dálítið á sig og að mínu mati taka stærðfræðina aftur í sátt.
Ég tel því það a.m.k. jafn mikilvægt að endurverkja áhuga nemenda á stæðrfræðinni og tiltrú þeirra á sjálfum sér sem nemenda í greininni eins og að kenna þeim tiltekin viðfangsefni innan stæðrfræðinnar. Þess vegna tel ég mikilvægt að spyrja s grundvallarspurninga, s.s.
- Til hver erum við að kenna þessum nemendum stærðfræði?
- Hvaða stærðfræði á að kenna þeim?
- Hvernig á að kenna þá stærðfræði?
- Hvernig hjálpar sú stærðfræði við að undirbúa þau undir áframhaldandi nám eftir stúdentspróf?
í stað þes að gefast upp á því að kenna "þessu liði" stærðfræði.
Hvað varðar fyrstu spurninguna "Til hver erum við að kenna þessum nemendum stærðfræði?" þá vil eg vísa í það sem ég sagði í upphafi máls míns um mikilvægi stærðfræðinnar sem hjálpargreinar við grunngreinar brautarinnar.
Önnur spurningin er "Hvaða stærðfræði á að kenna þeim?" Mér hefur verið tíðræt um tölfræðina í þessari framsögu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er stærðfræði fyrir félagsvísindagreinar (Social Sciences) ekki síður mikilvæg námsgrein á framhaldsskólastiginu í löndunum í hringum okkur, en algebran fyrir raungreinabrautirnar, þó mér finnist fara heldur lítið fyrir henni hér á landi. Einn stærðfræðikennari við MH fór fyrir skömmu í námsleyfi til Þýskalands. Hann sagði mér þegar hann kom aftur að hann hefði m.a. farið í heimsókn í þýska menntaskóla. Þar er tölfræði stærri hluti stærðnámsefnis á félagsfræðabrautum en hér á landi. Hann sagði jafnframt að hún væri jafn vel kennd með sambærilegum en ekki sömu algebrískrum áherslum og gert væri í algebrunni á náttúrufræðibraut. Þannig kennd tel ég að hún leggði hún góðan grunn að almennum skilningi á stærðfræði hjá þessum nemendum. Sjálfur sakna ég rúmfræðinnar í námsefni stærðfræðinnar á þessari braut svo og þrautalausnum.
Þriðja spurningin er "Hvernig á að kenna þá stærðfræði?" Hér vil ég benda á að ég nota tölvur í kennslu minni í stærðfræði. Nota hana til að teikna gröf fyrir mig svo að ég sé ekki að eyða tíma í það í kennslustund. Þá fer ég inn í tölvustofu og læt nemendur bæði teikna gröf í tölvuforritinu "Grafkassi" auk þess að lesa upplýsingar af gröfum og leysa verkefni með aðstoð grafa sem þau teikna í forritinu. Með því að nota tölvu tel ég að fyrirbæri eins og deildun og heildun verði nánast "áþreifanleg" fyrir þau. Einnig þarf að þjálfa þau í að að vinna með töflur og gröf s.s. túlka tölfræðilegar upplýsinguar, að draga ályktanir um stærðir, sbr. marktækur munur (vikmörk) og "sterk" fylgni. Það þarf einnig að gefa þeim tækifæri til að tjá sig munnlega og skriflega um stærðfræði.
Fjórða spurningin er "Hvernig hjálpar sú stærðfræði við að undirbúa þau undir áframhaldandi nám eftir stúdentspróf?" Ég vísa til þess sem ég sagði áður um könnunina sem ég gerði meðal nemenda Félagsvísindadeildar og mikilvægi stærðfræðinnar í þeirra augum.
Lokaspurningin er "Ef stærðfræðin er vísindagrein eins og t.d. félagsfræðin og sálfræðin af hverju fá þessir nemendur ekki samskonar innsýn inn í stærðfræðina sem vísindagrein eins og þær fyrrnefndu?" Ég bendi á það sem ég sagði um félagsfræðiáfangann FÉL 303 í upphafi máls míns. Auk þess finnst mér persónulega þessi ofuráhersla á dæmakennslu í stærðfræði sem námsgrein í framhaldsskólanum skemmd á greininni. Þessi áhersla sviftir nemandann tækifæri til að þroskast í glímu sinni við þessa grein í námi sínu. Auk þess er það augljóslega ólík upplifun á námgreinum að upplifa stærðræðin sem grein sem er upptekin við að finna rétta svarið (sem kennarinn veit fyrir eða er í svörum aftast í bókinni) á sama tíma sem hann upplifir félagsvísindagreinarnar sem greinar þar sem yfirleitt er ekki til eitt rétt svar. Áherslan verður þar á hvernig þú nálgast svarið en ekki svarið sjálft. Sem mér finnst vera í anda þrautalausna í stærðfræðinni.
6. Lokaorð
Ég er ekki þeirrar skoðunar að núverandi uppbygging félagsfræðabrautar framhaldssóknans hafi náð fullkomnun og allar breytingar á uppbyggingu hennar eða innihald tiltekinna námsgreina leiði óhjákvæmilega til skemmda á fullkomnu verki. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef stærðfræðin er ekki hjálpargrein við grundvallargreinar brautarinnar og/eða breytingar á uppbyggingu breytarinnar leiða til þess að nemendur hafa ekki sömu möguleika til að stunda nám á háskólastiginu hér á landi í framtíðinni og í dag , sé um skemmdarverk að ræða á þessari bóknámsleið framhaldskólans. Ég bendi á að þegar þessum brautum var komið á við menntaskóla landsins uppúr 1970 var hugmyndin eflaust að auka fjölbreytini námsleiða sem lauk með stúdentsprófi.
Ef við ætlum með "Enn betri skóla" að taka mið af því sem stefnt er að í löndunum í kringum okkur ætlum við væntanlega að stefna að því að a.m.k. þriðjungur tiltekins árgangs ljúki háskólagráðu. Ef það er markmiðið verða "miðlungsnemendurnir" (hvernig sem menn vila skilgreina þá) að fá námsframboð á framhaldsskólanstiginu við hæfi, námsframboð sem er öðruvísi en það sem boðið er á "hefðbundnu" bóknámsbrautunum s.s. náttúru- og /eða eðlisfræðibrautum og tungumálabrautum en sem er jafnframt jafn ögrandi og gerir sambærilegar kröfur til nemenda svo þeir séu í stakk búin til að takast á við nám á háskólastigi. Það tel ég að félagsfræðabrautir geri í dag eða a.m.k. geti gert með því að beyta innihaldi og námskröfum þeirra greina sem þegar eru á brautinni en ekki með því að minnka vægi stærðfræðinnar í því námi.
Ég bendi á að fyrirhuguð sérhæfing brauta er með öðrum formerkjum en sú sérhæfing sem fólst í hugmyndum okkar í MH 1991. Munurinn liggur að mínu mati fyrst og fremst í því að við ætluðum að láta nemendur bera ábyrgð á samsetningu námsins og létum hann hafa tilteknar námseigningar til eigin ráðstofunar. Auk þess gat hann alltaf skipt um skoðun. Fyrirhuguð sérhæfing er að mínu mati miklu stirðari þar sem valfrjálsar námseiningar eru eyrnarmektar brautarkjarnanum. Ef nemnandi af slíkri félagsfræðabraut vill skipta um skoðun og bæta við sig stærðfræði verður hann samkvæmt mínum skilningi að fara í öldungadeild eftir stúdentsspróf og taka þar þá stærðfræðiáfanga sem uppá vantar í stað þess að geta gert það um leið og hann rekur sig á afleiðingar þess að hafa valið þessa "breyttu" braut.