Saga Félags félagsfræðikennara

Hér fyrir neðan má sjá punkta úr sögu félagsins 1977 til 2005. Frá árinu 2005 er sagan skráð í skýrslur stjórnar sem eru fluttar á aðalfundum félagsins. Sjá hér
 

1977

Föstudaginn 9. des.1977 boðuðu kennarar við M.H. til fundar þar sem rætt var um að stofna samtök samfélagsfræðikennara í framhaldsskólum.

Tillögur um að kennarar í eftirtöldum greinum fengju aðild að samtökunum: Félagsfræði, Hagfræði, Heimspeki, Lögfræði, Mannfræði, Sagnfræði, Sálarfræði, Stjórnmálafræði, Trúfræði, Uppeldisfræði og Þjóðfræði.

Bráðabirgðastjórn:

Þorlákur H. Helgason MH, formaður
Haukur Ingibergsson Bifröst, meðstjórnandi
Margrét Björnsdóttir FB, meðstjórnandi

Framhaldsstofnfundur - 4.3 1978

 • Kennarar í samfélagsgreinum áttu rétt til fundarsetu.
 • Landafræði bætt við sem samfélagsfræði
 • Markmið m.a. að skapa umræðuvettvang kennara um kennsluhætti og námsefni, kynningar á útgáfuefni og tilraunakennslu og viðhorfum skólayfirvalda í viðkomandi skólahéraði. Samstarf milli kennara.
 • Reynt hafði verið að fá ráðuneyti til að samþykkja tengls milli samfélagskennara (m.a. til að sjá um dreifingu námsefnis). Ráðuneyti synjaði málaleitaninni.
 • Félagið vildi hafa hönd í bagga með samningu margumrædds framhaldsskólafrumvarps.
 • Samþykkt að árgjald félagsins skyldi vera 1000 krónur.

1978-1986

Litlar upplýsingar eru um fyrstu ár félagsins - á fundum skiptust menn á upplýsingum um námsefni og öfluðu sér gagna frá nágrannaþjóðunum, þ.e. Danmörku og Svíþjóð. Möppur frá fyrstu árum innihalda aðallega verkefni, próf og áfangalýsingar.

Til er listi yfir þátttakendur á fundi 24. janúar árið 1980. Þar kemur fram að formaður félagsins er Bragi Guðbrandsson.

1986-1987

Félag Félagsfræðikennara hélt vinnufund 7. feb. í Nóatúni 17. Dagskrá: stutt erindi um námsefni, kennslu og síðan hópvinna.

Stjórn árið 1986:
Björn Bergsson MH (formaður)
Inga Sólnes
Ágústa Oddsdóttir
Hjalti Þórisson

1987-1988

Fundagerðabók frá árinu 1987

Björn Bergsson, formaður félagsins.

Aðalfundur félagsins haldinn 2. júní 1988

 • Björn Bergsson formaður lýsti starfsemi félagsins, en á árinu voru haldnir 10 fundir. Með honum í stjórn voru: Pétrún Pétursdóttir, Ágústa Oddsdóttir, Inga Sólnes og Guðlaugur (?).
 • Endurmenntunarnámskeið þann 30.5-3.6 1998. Leiðbeinandi Tony Marks frá North London Polytecnic. Tuttugu kennarar sóttu námskeiðið.
 • Petrún (gjaldkeri) fjallaði um fjármál félagsins, sem þá átti 4.000 kr. í sjóðum sínum.
 • Björn og Ágústa gáfu ekki kost á sér til endurkjörs, nýir meðlimir í þeirra stað: Garðar Gíslason og Þórunn Friðriksdóttir. Ágústa nýr formaður.
1988-1989

 

Ágústa Oddsdóttir, formaður félagsins.

Á þessu ári var þetta markverðast:

 • Undirbúningur tveggja endurmenntunarnámskeiða.
 • Upplýsingar um námsefni og námsefnisgerð.

1989-1990

 

Inga Sólnes, formaður félagsins.

 

 • Tvö endurmenntunarnámskeið voru haldin annað um fjölmiðla í samvinnu við Samtök móðurmálskennara en hitt um þróunarlönd sem Þorsteinn Helgason stýrði.
 • Endurskoðun byrjunaráfanga í félagsfræði (FÉL 102) - þannig að þær nýtist iðnbrautum.
 • Stefnt að því að gefa út fréttapésa a.m.k. einu sinni á ári.
 • Rætt um að æskilegt væri að sameina félagsfræðikennara og stjórnmálafræðikennara í eitt félaga til að gera félagið stærra og öflugra.
1990-1991

 

Kristín Magnúsdóttir formaður félagsins.

 

Fréttabréf (1.tbl. 2. árg.) sent út í júní 1990. Fyrsti árgangur finnst ekki. Í þessu fréttabréfi var m.a. fjallað um þriðju félagsfræðibókina eftir Ian Robertson í þýðingu Ágústu Oddsdóttur. Var henni þakkað þetta mjög svo þarfa framtak. Þórunn Friðriksdóttir gerði grein fyrir áfanganum SAM 106 sem var tilraunakenndur í Keflavík og á Selfossi. Garðar sagði frá nýju námsefni í fjölmiðlafræði og nýjum valáfanga, félagsfræði fatlaðra.

1991-1992

 

Kristín Magnúsdóttir, formaður félagsins.

 

Fréttabréf 1.tlb. 3.árg. Í fréttabréfinu er fjallað um bókina ,,Maður og jörð, Félagsfræði III eftir Ian Robertson í þýðingu Ágústu. Boðið var upp á kynningarfund á Lækjarbrekku og varð sá atburður upphaf þess að stofnaður var óformlegur spjallhópur sem hittist af og til um nokkurra mánaða skeið á Lækjarbrekku. Til dæmis er þess getið í annálum að 5. mars 1991 hafi Jón Ingi Sigurbjörnsson gert sér sérstaka ferð frá Egilstöðum til að mæta á spjallfund. Með honum á þessum fundi voru Ágústa og Kristín.

Aðalfundur félagsins var haldinn 19.sept. 1991. þar kom m.a. fram að:

 • Stjórnin hafði fundað 13 sinnum á árinu.
 • Að frá árinu 1990 hafði ráðuneytið boðið fagfélögum kennara á framhaldsskólastiginu samstarf - og lagt fram fé sem samsvaraði einum mánaðarlaunum í launaflokki 146-5 eða kr. 80.916.
 • Félagið hafði tekið á móti heimsókn sænskra félagsfræðikennara.
 • Fyrir aðalfund gerði Ásta Ragnarsdóttir, félagsfræðingur grein fyrir félagsfræðinámi í Bandaríkjunum og MA verkefni sínu við Western Michigan University, en hún fjallaði um táknfræði (semiotics).
 • Námskeið í aðferðafræði. Þorlákur Karlsson.
 • Torfufundirnir enn við lýði undir verndarvæng Ágústu Oddsdóttur. Haldnir síðasta miðvikudag hvers mánaðar.

1992-1993

 

Garðar Gíslason, formaður félagsins.

Á þessu ári var þetta markverðast:

 • Stjórnarkreppa vegna þess að tveir af þremur stjórnarmeðlimum óléttir á tímabilinu. Eignuðust báðir stjórnarmeðlimirnir myndarleg stúlkubörn með ½ mánaðar millibili.

1993-1994

 

Garðar Gíslason, formaður félagsins.

Í fréttum var þetta helst:

 • Ráðstefna (25.feb.): Bjarni Vestmann, upplýsingafulltrúi Utanríkisráðuneytisins flutti erindi og svaraði fyrirspurnum um EES. Umræður um stöðu félagsfræðinnar á framhaldsskólastiginu. Framsögumenn: Björn Bergsson og Gunnar Frímannsson. Samskipti við félagsfræðikennara í Noregi og Svíþjóð.
 • Mikill tími fór í að undirbúa námsferð til Washington DC í Bandaríkjunum. Þátttakendur í ferðinni, sem farin var 7-15 júní, voru 11 og komust færri að en vildu. Í þessari ferð gerðist félagið aðili að samtökum bandarískra félagsfræðinga, The American Sociological Association og þáði bókagjöf frá amerískum kollegum. Hópurinn heimsótti ýmsar stofnanir í ferðinni, m.a. skólamálaskrifstofu, Fangelsismálastofnun, Félag félagsfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið og Pentagon. Ekki var laust við að hroll setti að nokkrum kennu.
 • Fyrsta jólaglöggveislan sem félagið stóð fyrir fór fram 9. desember á Hótel Borg

Á árinu 1993 voru 10 stjórnarfundir haldnir og send út 4 fréttabréf.

1994-1995

Garðar Gíslason, formaður félagsins.

Í fréttum var þetta helst:

 • Félagið stóð fyrir námskeiði í Rúgbrauðsgerðinni um miðjan nóvember árið 1994 um:
  (a) Notkun dægurlagatónlistar í félagsfræðikennslu. Fyrirlesarar: Gestur Guðmundsson, Andrea Jónsdóttir, Gunnlaugur Ástgeirsson, Jón Ingi Sigurbjörnsson og Hjördís Þorgeirsdóttir.
  (b) Námsmat í félagsfræðigreinum. Fyrirlesari: Ólafur Proppé.
  Óvæntir atburðir gerðust á meðan námskeiðinu stóð - Guðmundur Árni Stefánsson þáverandi heilbrigðismálaráðherra sagði af sér ráðherradómi í næsta herbergi. Margir félagsfræðikennarar notuðu tækifærið til að gera greinina sýnilegri og tókst að fá mynd af sér í helstu fjölmiðlum landsins.
 • Félagið beitti sér fyrir því að stofnaðar yrðu tvær sérstakar stöður innan RUM fyrir framhaldsskólakennara, þannig að þeir gætu sinnt rannsóknarstörfum þar. Alþingi samþykkti fjárveitingu fyrir einni stöðu sem ráðuneytið skar síðan niður í sparnaðarskini. Björn Bergsson átti upphaflega hugmyndina.
 • Karlanefnd Jafnréttisráðs bað félagið um að skrifa eða sjá til þess að skrifað yrði kennsluhefti um heimilisofbeldi til kennslu í skólum. Garðar og Hjördís tóku það verk að sér.

Á tímabilinu voru haldnir 17 stjórnarfundir og send út 6 fréttabréf.Félagsmenn á skrá voru 75. Í stjórn: GG, HÞ, BB ásamt útlagastjórn: Jón Ingi, Hrafn, Laufey Petra, Helgi G., Birna G.

1995-1996

 

Garðar Gíslason, formaður félagsins.

Í fréttum var þetta helst:

 • Námskeið um tölvur og tölfræði: Þorlátkur Karlsson fjallaði um gerð kannana og tölfræðilega útreikninga. Jóhann Ísak Pétursson kynnti forrit sem hann hafði hanað fyrir úrvinnslu á spurningakönnunum fyrir nemendur. Lára Stefánsdóttir fjallaði síðan um Internetið. Margir félagsmenn voru þarna að stíga sín fyrstu skref í notkun þessa nýja miðils meðan aðrir státuðu af töluverðri reynslu.
 • Aðalfundur félagsins var haldinn 9. mars árið 1995 í Norræna húsinu. Í tenslum við aðalfund var haldin ráðstefna sem endranær. Þar fjallaði Rudolf Adolfsson geðhjúkrunarfræðingur um áfallahjálp, Magnús Gíslason sýndi glærusafn sem hann hafði unnið um þróun íslensks samfélags og Björn Bergsson fjallaði um hvernig hann hefur unnið með sorgarferlið í félagsfræðikennslu.
 • Náms og kynnisferð til Engands í samvinnu við Association for the Teaching Social Science. 21 kennari tók þátt í þessari ferð sem var mjög vel heppnuð í alla staði.
 • Samið nemendahefti og kennaraleiðbeiningar með verkefnum um jafnrétti í samvinnu við Félag sálfræði - og uppeldisfræðikennara, Jafnréttisráð og jafnréttisnefndar menntamálaráðuneytis. Garðar Gíslas. og Elín Vilhelmdsdóttir.

Á tímabilinu voru haldnir 9 stjórnarfundir og send út 2 fréttabréf. Stjórn félagsins: GG, HÞ, HÍÓ ásamt útlagastjórn: Jón Ingi, Hrafn, Laufey Petra, Helgi G., Birna G.

1996-1997

 

Garðar Gíslason, formaður.

Í fréttum var þetta helst:

 • ​Kennarafélögin óskuðu eftir að félagið tilnefndi einn fulltrúa til starfa í forvinnuhóp við endurskoðun námsskráa á námssviði samfélagsfræða fyrir grunn og framhaldsskóla. Þórunn Friðriksdóttir tók sæti í nefndinni og hefði stjórn félagsins ásamt þeim Þorláki Axel Jónssyni (MA) og Jóni Inga Sigurbjörnssyni (ME) sem bakhóp. Þar sem Þórunn fékk námsleifi eftir nokkura mánaða setu í nefndinni var ákveðið að Garðar kæmi í hennar stað í nefndina.
 • Félagið átti frumkvæði að og stóð fyrir ráðstefnu um nýja námskrá í samvinnu við Kennaraháskólann og kennara í öðrum félagsgreinum. Ráðstefnan fór fram í marsmánuði 1997.
 • Félagið stóð fyrir endurmenntunarnámskeiði um námsefnisgerð í félagsfræði. Um 16 kennarar sóttu námskeiðið.
 • Bresku félagsfræðikennarasamtökin (ATSS) bauð fjórum félögum að sitja aðalfund og ráðstefnu samtakanna í ágúst 1996. Garðar, Hjördís, Hannes og Þórunn sóttu ráðstefnuna fyrir hönd félagsins.
 • Tony Breslin, formanni ATSS boðið í heimsókn til Íslands. Tony hélt nokkra fyrirlestra hér á landi og gaf okkar félagi veglega bókagjöf.
 • Tony Pinches meðlimur í ATSS kom hingað til lands og hélt nokkra nemendafyrirlestra hér á landi í febrúar 1997.
 • Hannes Í. Ólafsson beðinn um að skrifa grein fyrir hönd félagsins í tímaritið The Journal of the Association for the Teaching of the Social Sciences.
 • Í tengslum við aðalfund hélt Margrét Jónsdóttir erindi um kennslufræði félagsgreina og Björn Bergson fjallaði um nokkra þætti sem einkenna góða félagsfræðikennslu.
 • Félagið kemur sér upp netfangi hjá menntanetinu. Með netfanginu tengjast kennarar mun betur saman og fjölmargir hafa þegar notfært sér það. Magnús Gíslason hannar heimasíðu félagsins.
 • Ráðstefna og afmælisundirbúningur félagsins. Í nefnd: Garðar, Gestur Guðmundsson, Helgi Gunnlaugsson og Kristín Magnúsdóttir.
Á tímabilinu voru haldnir 14 stjórnarfundir og send út 3 fréttabréf. Í stjórn félagsins sitja: GG, HÞ, HÍÓ ásamt útlagastjórn: Jón Ingi, Hrafn, Laufey Petra, Helgi G., Birna G.
 
 
1997-1998
 
Garðar Gíslason formaður. Aðrir í stjórn Hjördís Þorgeirsdóttir og Hannes Í. Ólafsson.
 
Aðalfundur félagsins var haldinn 19. ágúst 1998.
Þann 29. nóvember 1997 hélt félagið ráðstefnu í samvinnu við Félag félagsfræðinga um menntun og samfélag. Fluttir voru fjórir fyrirlestrar, Þórólfur Þórlindsson fjallaði um stefnumótun í menntamálum, Gestur Guðmundsson um almennt nám eða starfsnám, Þorgerður Einarsdóttir um afrakstur menntunar eftir kynferði og Hannes Í. Ólafsson um félagsfræði og kennslufræði. Að lokinni ráðstefnu var boðið til afmælisveislu í Skólabæ þar sem veittar voru léttar veitingar. Þátttaka var góð, milli 30 og 40 manns sóttur ráðstefnuna og álíka margir mættu í afmælisveisluna. 
 
Námskrárgerð: Forvinnuhópur í námskrárgerð er langt kominn með að móta markmið fyrir grunnskóla. Nú er að því komið að setja saman samskonar markmið fyrir framhaldsskóla. Áætlað er að vinnu forvinnuhópsins verði lokið mánaðarmótin febrúrar/mars, en þá taka vinnuhópar við og móta áfangalýsingar. Fulltrúi félagsins í forvinnuhópnum er Garðar Gíslason en meðal fulltrúa ráðuneytisins er Helgi Gunnlaugsson. Um leið og búið er að semja drög með markmiðslýsingum stendur til að halda opinn fund til að ræða tillögurnar. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 13. febrúar kl. 14:00-16:00 í Norræna húsinu. 
 
Félagið stóð fyrir endurmenntunarnámskeiði 17.-19. ágúst. Efni námskeiðsins var störf og kenningar frumkvöðla félagsinnar og gildi kenninga til þess að skoða nútíma samfélag. Steve Taylor var aðalfyrirlesari á námskeiðinu. 
 
Stjórn og endurskoðandi félagsins (Magnús Ingólfsson) endurkjörin. 
 
1999-2000
Garðar Gíslason, formaður. 
 
Aðalfundur félagsins var haldinn 22. október 1999. Á þeim fundi var síðasta stjórn endurkjörin, en í henni sátu Garðar Gíslason, MK formaður, Hjördís Þorgeirsdóttir, MS gjaldkeri og Hannes Í. Ólafsson, FÁ ritari. Magnús Gíslason, Flensborg var kosin endurskoðandi félagsins. Á kjörtímabilinu voru haldnir 6 opinberir stjórnarfundir sem er nokkur fækkun frá árinu áður (15 fundir). Fækkun funda má aðallega rekja til þess að stjórnarmenn beittu tölvupósti óspart í samskiptum sín á milli. Sama á við um fréttabréf félagsins, þau fara nú að mestu fram í gegnum póstlista félagsins. Á ráðstefnu í tengslum við síðasta aðalfund var kynning á bókum sem nýst gætu í kennslu. Þannig kynnti Helgi Gunnlaugsson tvær bækur sem hann var með í smiðum, Wayward Icelanders og Afbrot og Íslendingar. Garðar Gíslason kynnti væntanlega bók sína Félagsfræði, kenningar og samfélag. Adolf Petersen kynnti þýðingu og staðfærslu á kennslubók í fjölmiðlafræðum og Björn Bergsson kynnti sína bók sem ber heitir Félagsfræðikenningar og rannsóknaraðferðir. Allar þessar bækur eru nú komnar á markað. 
 
Helstu verkefni stjórnar á tímabilinu voru eftirfarandi: 
 • Endurmenntunarnámskeið sumar og haust 2000. Að þessu sinni stóð félagsið fyrir tveimur myndarlegum sumarnámskeiðum. Fyrra námskeiðið, sem reyndar er að ljúka nú í tengslum við aðalfund um upplýsingatækni í félagsfræðikennslu. Fyrir utan innlenda fyrirlesara var Alan Levine bandarískur sérfræðingur í notkun upplýsingatækni í kennslu fenginn til að kenna mönnum réttu handtökin. Umsjónarmenn námskeiðsins voru þeir Garðar Gíslason og Magnús Gíslason. Seinna sumarnámskeiðið bar heitið: Aðferðarfræði - Íslenskar rannsóknir. Úrvalslið fræðimanna var fengið til að halda fyrirlestra um nýjustu rannsóknirnar og kynnt voru aðferðarfræðiforritin Spurnir frá Námsgagnastofnun og SPSS. Hannes Í. Ólafsson og Hjördís Þorgeirsdóttir voru umsjónarmenn aðferðarfræðinámskeiðs. Var námskeiðið í alla staði frábærlega vel heppnað, eins og fram kemur á matsblöðum sem þátttakendur skiluðu inn að afloknu námskeiði. 
 • Námsefnisgerð: Félagið var umsagnaraðili um umsóknir um styrki til námsefnisgerðar. Sjö umsóknir bárust að þessu sinni. Félagið mælti með tveimur þeirra, Félagsfræði, kenningar og samfélag eftir Garðar Gíslason og Fjölmiðlafræði, sem Adolf Petersen sá um að þýða og staðfæra. 
 • Erlend samskipti: Á undanförnum árum hefur félagið staðið fyrir ýmiskonar náms- og kynnisferðum til útlanda. Mikill áhugi er á meðal félagsmanna á sumarnámskeiði í New York árið 2002, þar sem meðal annars höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna yrðu heimsóttar. Málið er enn á byrjunarstigi. 
 • Nýtt félagatal: Eitt af föstum liðum stjórnar er að endurnýja félagsmannatalið. Stjórnin hefur verið að hringja í alla framhaldsskóla landsins til að afla upplýsinga um nýja félags- og stjórnmálafræðikennara. Félagatalið er langt komið, en í því er nafn kennara, skóli, kennitala, heimilisfang, símanúmer og netfang.
 • Heimasíða félagsins:  Heimasíða félagsins hefur tekið nokkrum breytingum, þar sem Magnús Gíslason, umsjónarmaður síðunnar hefur verið duglegur við að bæta inn á hana efni og myndum. Markmið stjórnar er að heimasíðan verði það öflug að félagsmenn geti notað hana sem öflugt hjálpartæki í kennslu og til að leita sér upplýsinga um félagsfræðileg málefni. Svo það megi takast verða sem flestir að leggja síðunni lið með áhugaverðu efni, verkefnum, prófabönkum, krækjum og fleiru sem nýtast mætti okkur í starfi. Eins eru hugmyndir um að tengja síður með upplýsingum um styrki (Evrópuráðið) inn á okkar heimasíðu. 

Á aðalfundi félagsins 6. október 2000 voru Garðar Gíslason, Hjördís Þorgeirsdóttir og Hannes Í. Ólafsson endurkjörin. Magnús Gíslason og Björk Þorgeirsdóttir voru kosin í varastjórn og Erlingur Hansson kosinn endurskoðandi félagsins. 

2000-2002

Aðalfundur og fræðslufundur haldinn 8. nóvember 2002 í Skólabæ. 

Fræðslufundur:

 • Ólafur Þ. Harðarson flutti erindi um komandi Alþingiskosningar 2003
 • Björn Bergsson, Hannes Í. Ólafsson og Garðar Gíslason kynntu nýútkomnar námsbækur sem þeir höfðu samið.

Skýrsla stjórnar tímabilið 2000-2002: Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 6. október árið 2000 á Fjörukránni í Hafnarfirði. Á þeim fundi var síðasta stjórn endurkjörin, en í henni sátu: Garðar Gíslason, MK, Hjördís Þorgeirsdóttir, MS, Hannes Í. Ólafsson, FÁ. Magnús Gíslason, Flensborg og Björk Þorgeirsdóttir, Kvennó voru kosin í varastjórn. Magnús Gíslason náði ekki endurkjöri sem endurskoðandi félagsins, en í hann stað var kosinn Erlingur Hansson, FB. 

Síðasti aðalfundur var haldinn í tengslum við námskeið um notkun upplýsingatækni í félagsfræði sem var í umsjón Magnúsar Gíslasonar og haldið í Flensborgarskóla. Á því námskeiði voru bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar. Jóna Pálsdóttir í menntamálaráðuneyti fjallaði um dreifkennslu, Alan Levine frá háskóla í Arisona fjallaði um forrit til kennslu, hönnun og mat á vefsíðum, Þorvaldur Pálmason fjallaði um kennslufræðilegt mat á vefsíðum og Magnús Gíslason kenndi hópnum að búa til vefsíður í Fron Page. 

Á tímabilinu voru haldnir 12 formlegir stjórnarfundir, geta má þess að á tölvu- og upplýsingaöld notar stjórnin tölvupóst óspart í samskiptum sín á milli. Fréttabréf fara líka sömu leið, það er um póstlista félagsins. 

Helstu verkefni stjórnar á tímabilinu voru eftirfarandi: 

 • Endurmenntunarnámskeið. Á tímabilinu 2001-2002 var félagsmönnum boðið upskóla upp á tvö sumarnámskeið. Það fyrra var haldið í Flensborgarskóla 16.-17. ágúst 2001. Heiti þess var Táknræn samskipti og fjölmiðlar. Aðalfyrirlesarar á námskeiðinu voru Tony Lawson frá menntadeild Leicester háskólanum, sem fjallaði um táknræn samskipti. Þorbjörn Broddason frá Háskóla Íslands fjallaði um fjölmiðlarannsóknir og Harpa Hreinsdóttir, Fjölbrautaskóla Vesturlands fjallaði um Hagnýta upplýsingatækni. Í lok námskeiðs kynnti stjórnin efni frá ráðstefnu ATSS sem hún sótti í Englandi í júlí 2001. Vinnuhópar voru starfandi báða námskeiðsdagana. Tony Lawson þáði ekki laun fyrir sinn fyrirlestur en fór fram á að peningarnir yrðu notaðir til að þýða verkefnabanka hans. Verið er að leita eftir þýðanda að verkefinu. Seinna námskeiðið var um Alþjóðleg samskipti í New York. Upphaflega stóð til þess að takmarka þátttakendafjölda við 20 manns en fallið var frá því vegna mikils áhuga, en 29 félagsmenn sóttu þetta námskeið, sem tókst í alla staði mjög vel. Farið var í heimsókn í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna og hlustað á fyrirlestur um Internationa Criminal Court. Hópurinn hitti síðan íslensku sendinefndina í heimboði hjá Sendiherra Íslands hjá SÞ. Af öðrum áhugaverðum stöðum og stofnunum sem hópurinn heimsótti má nefna: Strawberry Fields (minningareit um John Lennon í Central Park), ferð um Manhattan undir leiðsögn, Martin Luther King skólann í Harlem, Midtown Community Court (þar sem fylgst var með réttarhöldum yfir fjöldamorðingja), Rockefeller Center, NBC, Ellis Island, svertingamessu í Harlem og fleira og fleira. 
 • Námsefnisgerð: Félagið var umsagnaraðili um umsóknir um styrki til námsefnisgerðar. Átta umsóknir bárust fyrir árið 2001. Félagið mætli með þremur þeirra, Rafrænum verkefnabanka í Fél203 eftir Garðar Gíslason, Félagsfræði eftir Þórunni Friðriksdóttur/Iðnú og Ofbeldi eftir Garðar Gíslason, Hjördísi Þorgeirsddóttur og Ingólf Gíslason (mælt með að hluta). 
 • Erlend samskipti:  Félagið er í góðum tengslum við Félag félagsgreinakennara á Bretlandseyjum (ATSS), en það félag hafði milligöngu um að útvega fyrirlesara á námskeiðið um Táknræn samskipti. Stjórn Félags félagsfræðikennara sótti ennfremur aðalfund og ráðstefnu ATSS félagsins í júní 2001. Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi aðstoðaði félagið við að skipuleggja náms- og kynnisferðina til New York sem farin var í júní 2002, meðal annars útvegaði sendiráðið félaginu tengiliði í New York. 
 • Nýtt félagatal: Eitt af föstum liðum stjórnar er að endurnýja félagsmannatalið. Stjórnin hefur verið að hringja í alla framhaldsskóla landsins til að afla upplýsinga um nýja kennara í félagsgreinum (í félags-, stjórnmála- og fjölmiðlafræði). Garðar hefur séð um að uppfæra póstlista félagsins, bæta nýjum nöfnum inn eða breyta netföngum.
 • Heimasíða félagsins: Magnús Gíslason er umsjónarmaður heimasíðu félagsins og hefur verið duglegur að bæta inn aðsendu efni, sem reyndar mætti vera meira. Á heimasíðunni má finna myndir og greinar um New York ferðina ásamt mörgu öðru áhugaverðu. Rætt hefur verið um að setja verkefna- og prófabanka inn á lokað svæði heimasíðunnar og að þeir einir sem leggðu inn efni þar, gætu tekið út efni frá öðrum. Markmið stjórnar er að heimasíðan verði öflugt hjálpartæki við kennslu. 
 • Endurmenntunaráætlun:  Félagið var beðið um að semja endurmenntunaráætlun sem næði frá árinu 2001 og fram til ársins 2006. Félagið sendi Endunarmenntunarstofnun Háskóla Íslandds áætlun upp á 13 námskeið á tímabilinu, bæði sumarnámskeið og námskeið haldin á starfstíma skóla. 
 • Samstarfs: Félag sálar- og uppeldisfræðikennara í framhaldsskólum hefur óskað eftir viðræðum við Félag félagsfræðikennara um aukna samvinnu og hugsanlega sameiningu þessara tveggja félaga. Hannes ræddi þessar hugmyndir við félagsmenn á aðalfundinum og samþykkt var að biðja félagið um nánari útfærslu. 

Á aðalfundinum var kosnin 5 manna stjórn: Björk Þorgeirsdóttir, Garðar Gíslason, Hannes Í. Ólafsson, Hjördís Þorgeirsdóttir og Katrín Baldursdóttir. 

2002-2003

Garðar Gíslason, formaður. Aðrir í stjórn: Hjördís Þorgeirsdóttir, Hannes Í. Ólafsson, Björk Þorgeirsdóttir og Katrín Baldursdóttir. 
Boðað til fræðslu- og aðalfundar félagsins 14. nóvember 2003. Staðsetning: Rúgbrauðsgerðin, Borgartúni 6, Reykjavík. 

Dagskrá fræðslufundarins: 

 • Fulltrúi menntamálaráðuneytisins ræðir fyrirhugaða styttingu framhaldsskólans
 • Hjördís Þorgeirsdóttir: Félagsfræðin í MS
 • Umræður 

Á aðalfundinum samþykkti fundurinn  eftirfarandi ályktun félagsins um styttingu náms til stúdentspróf:

Félag félagsfræðikennara átelur menntamálaráðuneytið fyrir faglega óásættanleg vinnubrögð vegna fyrirhugaðrar styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú ár. Áform um styttingu náms til stúdentspróf krefjast endurskoðunar á íslenska skólakerfinu í heild sinni og fráleitt er að stefna að einhliða niðurskurði á framhaldsskólanum.

Ein helstu rök fyrir styttingu er samanburður á námstíma við hin Norðurlöndin. En sá samaburður verður að ná til allra þátta skólastarfsins en ekki eingöngu klukkustundafjölda í kennslu til stúdentsprófs. Líta verður t.d. á námsinnihald, námsmat, lengd skólaársins, kostnað nemenda af skólagöngu, vinnu nemenda með námsi, kennsluskyldu kennara og starfsaðstæður í framhaldsskólum.

Aðalfundur Félags félagsfræðikennara leggur áherslu á að nám til stúdentsprófs á bæði að veita almenna menntun og undirbúning fyrir háskólanám. Við óttumst að með styttingu framhaldsskólans verði námið skert verulega, gert einhæfara og að nemendur fái lakari undirbúning fyrir háskólanám og líf í fjölbreytilegu og fjölmenningarlegu samfélagi. 

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er bent á nauðsyn þess að tryggja að hver einstaklingur finni nám við sitt hæfi og að nemandinn getir ráðið námshraða sínum. Fundurinn tekur undir þetta og leggur áherslu á að haldið verði í fjölbreytt námsframboð, sérhæfingu innan kjörsviða og valmöguleika nemenda. Það ber að auðvelda framhaldsskólum að bjóða hæfileikaríkum nemendum leiðir til að ljúka stúdentsprófi á þremur árum en það á ekki að bitna á menntun allra framhaldsskólanemenda. 

14. nóvember 2003
Garðar Gíslason, formaður
Félags félagsfræðikennara 

Skýrsla stjórnar tímabilið 2002-2003:
Síðasti aðalfundur félagsin var haldinn 8. nóvember 2002 í Skólabæ, húsnæði í eigu Háskóla Íslands við Suðurgötu 26. Á þeim fundi var síðasta stjórn endurkjörin, en í henni sátu: Garðar Gíslason, MK, Hjördís Þorgeirsdóttir, MS og Hannes Í. Ólafsson, FÁ. Tveir nýir stjórnarliðar bættust við, þær Katrín Baldursdóttir, FÁ og Björk Þorgeirsdóttir Kvennaskólanum í Reykjavík. Þar með voru stjórnarliðar ornir 5 þótt í lögum félagsins sé strangt til tekið ekki gert ráð fyrir nema þremur í stjórn. Erlingur Hansson, FB var endurkjörinn sem endurskoðandi félagsins. 

Sú hefð hefur skapast að bjóða uppá fræðsluerindi í tengslum við aðalfund. Að þessu sinni flutti Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur og prófessor við HÍ erindi um væntanlegar Alþingiskosningar árið 2003. Að loknu erindi urðu skemmtilegar og snarpar umræður um erindi Ólafs. 

Eftir fræðsluerindið var kynning á nýju námsefni í félagsfræði. Björn Bergsson kynnti bók sína: "Hvernig veit ég að ég veit", Björn Bergsson, Stefán Karlsson og Nína Rós Ísberg kynntu bók sína: "Kemur félagsfræðin mér við". Hannes Í. Ólafsson kynnti einnig bók sína: "Ríkar þjóðir og snauðar" og Garðar Gíslason kynnti endurútgáfu af bókinni "Félagsfræði, einstaklingur og samfélag". 

Að loknum kynningum af nýju námsefni var rætt um síðasta námskeið til New York og sýndar myndir úr ferðinni og þar strax á eftir um endurmenntunarnámskeið, það er hugmyndir um sumarnámskeið. 

Á tímabilinu voru haldnir 4 formlegir stjórnarfundir, en geta má þess að á upplýsingaöld styðst stjórnin tölvuvert við tölvupóst í samskiptum sín á milli. Fréttabréf félagsins fara líka sömu leið, það er um póstlista félagsins. 

Helstu verkefni stjórnar á tímabilinu voru eftirfarandi: 

 • Endurmenntunarnámskeið:  Á tímabilinu var boðið upp á eitt sumarnámskeið í samvinnu við Félag sögukennara. Námskeiðið fjallaði um Íslam og fjölmenningarlega kennslu og var haldið í Skálholti 27.-30. júní 2003. Aðalfyrirlesarar á námskeiðinu var Magnús Bernharðsson og dr. Michele háskólakennarar í Bandaríkjunum
 • Námsefnisgerð: Félagið er umsagnaraðili um umsóknir um styrki til námsefnisgerðar. Fjórar umsóknir bárust fyrir árið 2002. Félagið mælti með tveimur þeirra, sú fyrri var: "Fjölmenningarlegt samfélag á Íslandi" eftir Guðrúnu Pétursdóttur og "Kemur félagsfræðin mér við" eftir þau Björn Bergsson, Stefán Karlsson og Nínu Rós Ísberg
 • Nýtt félagatal:  Eitt af föstum liður stjórnar er að endurnýja félagalistann. Mjög erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar frá félagsmönnum um nýja kennara í sínum skólum. Sú leið sem hefur skilað mestum árangri er að hringja á skrifstofur allra skóla og fá upplýsingar þaðan. Sú vinna er mjög tímafrek og hefur því setið á hakanum á þessu kjörtímabili. Félagsmenn eru hvattir til að senda stjórninni upplýsingar um allar breytingar á félagsgreinakennurum í sínum skólum, það er að segja ef nýir kennarar koma inn eða aðrir hætta í félagsfræði, stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði. 
 • Heimasíða félagsins: Magnús Gíslason er umsjónarmaður heimasíðu félagsins. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að senda inn efni og greinar sem þeir telja að geti nýst öðrum í kennslu. Á heimasíðu félagsins er að finna myndir og greinar um New York ferðina árið 2002 og um endurmenntunarnámskeiðið í sumar ásamt mörgu öðru áhugaverðu efni. Markmið stjórnar er að heimasíðan verði öflugt hjálpartæki við kennslu. 
 • Stytting framhaldsskólans: Nokkrar umræður hafa orðið um fyrirhugaða styttingu framhaldsskólans, bæði meðal kennara og eins úti í þjóðfélaginu. Póstlisti félagsins var notaður til skoðanaskipta og fóru nokkrir félagsmenn fram á að stjórnin samþykkti ályktun um þetta mál. Félagar í stjórn félagsins hafa áreiðanlega jafn sterkar skoðanir og aðrir félagsmenn um styttingu framhaldsskólans. Að gefnu tilefni verður þó að segja að það er ekki í verkahring stjórnar félagsins að taka formlega afstöðu til þessarar styttingar. Til þess höfum við væntanlega Félag framhaldsskólakennara og Kennarasamband Íslands. Stjórn félagsins á hins vegar að fylgjast vel með því hvort verið sé "að rústa félagsfræðibrautinni". Stjórnin tók nú samt á þessu máli - og samdi ályktun sem lesin var upp til samþykktar á fundinum hér áðan.

2004-2005
Skýrsla stjórnar fyrir árið 2004-2005:
Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 14. nóvember 2003 í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6. Á þann fund mætti Oddný Harðardóttir verkefnastjóri hjá menntamálaráðuneytinu og kynnti fyrirhugaða styttingu framhaldsskólans. Hjördís Þorgeirsdóttir konrektor MS fjallaði um félagsfræði kennslu í MS. Í lok fundar voru síðan ræddar hugmyndir að endurmenntunarnámskeiðum. 

Kosningar til stjórnar urðu ekki frekar en vanalega því síðasta stjórn var einróma kjörin, en í henni sátu: Garðar Gíslason, formaður MK, Björk Þorgeirsdóttir, Kvennó gjaldkeri og Hannes Í. Ólafsson, FÁ ritari. Erlingur Hansson FB var endurkjörin sem endurskoðandi félagsins. 

Á tímabilinu voru haldnir 14 stjórnarfundir: 

Helstu verkefni stjórnar á tímabilinu voru eftirfarandi: 

 • Sumarnámskeið 2004: Frá kennslu yfir í nám (18.-20. ágúst). Félagsfræðingurinn og kennslufræðingurinn Ari de Haar frá Hollandi kynnti hugmyndafræðina að baki náms í staðum kennslu. Margrét Jónsdóttir, Kvennaskólanum fjallaði um notkun ferilsmappa við námsmat og Hannes Í. Ólafsson stýrði hópvinnu og umræðum í lok námskeiðs. Námskeiðið var vel heppnað og þátttakendur mjög ánægðir með það. 
 • Sumarnámskeið 2005: Töluverður tími hefur farið í að undirbúa sumarnámskeið félagsins, en að þessu sinni verður Kenýa heimsótt. Elín Þorgeirsdóttir hjá Rover Expeditions (sem nú heitir afrika.is) hefur séð um alla skipulagningu ferðarinnar í góðu samráði við stjórn félagsins. Ferðin er opin bæði félagsmönnum og mökum þerra. Nú þegar hafa 21 skráð sig í ferðina en hámarks fjöldi þátttakenda var ráðgerður 20. Farið verður í ferðina í byrjun ágúst 2005. 
 • Stytting framhaldsskólans: Töluvert hefur verið rætt um styttingu framhaldsskólans, bæði innan stjórnar og eins á póstlista félagsins. Formaðurinn mætti á nefndarfund haldinn á vegum ráðuneytisins um styttinguna - en á þeim fundi sóttu fulltrúar fyrir heimspeki stíft inn í væntanlega nýja námskrá. Hannes Í. Ólafsson er nú formaður vinnuhóps um endurskoðun félagsfræðiáfanga í tengslum við styttinguna. Félaginu hefur nú borist formleg beiðni um tilnefningu einstaklinga í vinnuhóp um námskrárgerð. Ákveðið var að Garðar Gíslason og Björk Þorgeirsdóttir tækju að sér þau störf. 
 • Námsefnisgerð: Félagið var umsagnaraðili um umsóknir um styrki til námsefnisgerðar. Nokkrar umsóknir bárust og mælti stjórnin með umsóknum frá Birni Bergssyni (Fél103), Kristjáni E. Guðmundssyni (Fél323) og Adolf Petersen (Fjö103). 
 • Heimasíða: Hafin er vinna við endurskipulagningu heimasíðu félagsins. Að þessu sinni stendur til að vefa hana á gagnvirkan vef þannig að einfaldara og auðveldara verði að uppfæra hana og halda henni lifandi. Hún mun skiptast í þrjá hluta, einn tengist félaginu beint, annar hlutinn tengist kennslu og þar verða sett inn verkefni, ítarefni, próf og annað sem nýtist kennurum beint í starfi. Þar mitt á milli (hluti 3) verða fréttir, tilkynningar og fleira í þeim dúr. Síðan verður vistuð á vefþjóni FÁ. Félagsmenn eru hvattir til að senda inn efni til umsjónarmanna heimasíðunnar svo hægt verði að byggja upp öflugan kennsluvef í okkar fagi. Verkefnabankar, verkefni, próf, ítarefni, ábendingar um efni, umsagnir um bækur/kennsluefni - allt er þetta vel þegið. Umsjónarmenn/vefsíðunefndina skipa: Garðar Gíslason, Hannes Í. Ólafsson og Magnús Gíslason sem hefur haft veg og vanda að heimasíðunni hingað til. 
 • Félagatal: Einn af föstum liðum stjórnar er að endurnýja félagalistann. Til að auðvelda stjórninni þá vinnu eru félagsmenn hvattir til að láta vita af einhverjum breytingar verða (nýjir kennarar) í félagsgreinum (félagsfræði, stjórnmálafræði, fjölmiðlafræði og mannfræði). Eins eru félagsmenn beðnir um að kynna nýjum kennurum um tilvist félagsins og að senda okkur ný netföng svo hægt sé að setja viðkomandi á póstlista félagsins.