Skýrsla stjórnar 2008 - 2011

Skýrsla stjórnar 2008-2011
Skýrsla stjórnar Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum tímabilið okt. 2008-feb. 2011.

 

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn í Sægreifanum, Geirsgötu 8, Reykjavík 24. október 2008.

Á fundinum kynnti Hannes Í Ólafsson skýrslu stjórnar og Björk Þorgeirsdóttir kynnti ársreikninga sem voru samþykktir. Stjórn félagsins var endurkjörin en í henni voru Hannes Í Ólafsson, FÁ, formaður, Garðar Gíslason, MK, ritari og Björk Þorgeirsdóttir, Kvennó, gjaldkeri. Aðalheiður Dröfn Eggertsdóttir og Helga Þórsdóttir voru kosnar varamenn og Erlingur Hansson var endurkjörinn endurskoðandi félagsins.

Fyrsti fundur stjórnar var svo haldinn 11. nóvember. Stjórnin skipti með sér verkum á sama hátt og áður: Hannes Í Ólafsson formaður, Garðar Gíslason ritari og Björk Þorgeirsdóttir gjaldkeri.

Á tímabili núverandi stjórnar hafa verið haldnir nítján skráðir fundir og allmargir óskráðir en það er svipaður fjöldi og á kjörtímabilinu á undan.

Helstu verkefni stjórnarinnar á tímabilinu voru eftirfarandi:

  1. Endurmenntunarnámskeið og ráðstefnur:
     

Á samtals 10 stjórnarfundum var rætt um endurmenntunarnámskeið í samstarfi við Félag sögukennara. Skipulagning þess námskeiðs var aðallega í höndum okkar félags sem sá um alla undirbúningsvinnu s.s. að fá fyrirlesara og húsnæði og gistingu vegna námskeiðsins.

Á samtals 5 stjórnarfundum var unnið að skipulagningu endurmenntunarnámskeiðs um frávik, afbrot og gerð hæfniviðmiða.

Nú þegar hefur á 5 stjórnarfundum verið rætt um endurmenntunarnámskeið í Færeyjum nú í sumar.

Auk þessa var á fundum stjórnar rætt um aðrar hugsanlegar ráðstefnur og endurmenntunarnámskeið. M.a. var fundað með kennurum HÍ vegna ráðstefnunnar sem verður hér á eftir.

Meginafurðir funda um endurmenntunarnámskeið og ráðstefnur eru:

*Endurmenntunarnámskeið um frávik og afbrot og hæfniviðmið í félagsgreinum sem haldið var 13-14 ágúst 2009.

*Endurmenntunarnámskeið um mannréttindi og mannréttindanám sem haldið var á Hvanneyri í samvinnu við Félag sögukennara 11.-13 ágúst 2010.

*Endurmenntunarnámskeið sem haldið verður í Færeyjum í júní á þessu ári.

*Ráðstefna 23.okt 2009 um jafnréttisfræðslu og skipulag félagsfræðikennslu í Kvennaskólanum.

*Ráðstefna sem fram fer hér á eftir um kröfur félagsvísindadeildar til nemenda sinna og um færeyskt þjóðlíf.

  1. Samskipti við menntamálaráðuneyti og Endurmenntun HÍ
     

Á nokkrum fundum stjórnar var rætt um samskiptaörðugleika við Endurmenntunarstofnun HÍ. Á kjörtímabilinu 2006 – 2008 hafnaði þessi stofnun upphaflega að styrkja endurmenntunarnámskeið okkar í Eistlandi. Eftir mótmæli okkar ákvað stofnunin síðan að endurskoða ákvörðun sína. Eftir sem áður hefur tortryggni ríkt í samskiptum okkar við Endurmenntunarstofnun og hefur sú tortryggni m.a. birst á árlegum fundum sem stofnunin heldur með formönnum fagfélaga.

Stjórn félagsins er ekki heldur sátt við nýtt fyrirkomulag á styrkveitingum ráðuneytisins til fagfélaga. Árið 1991 gerði félagið samkomulag við menntamálaráðuneytið um að félagið fengi greidd ein mánaðarlaun kennara á ári og í stað þess legði félagið fram starf varðandi upplýsingar um félagsfræðikennslu og héldi ráðstefnur tengdar félagsfræðikennslu.

Fyrir ári síðan hætti ráðuneytið að endurnýja þennan samning og tók upp nýjar verklagsgreiðslur. Verklag ráðuneytis nú er nokkuð flókið en byggist upp á því að stofnaðir voru 22 flokkar kennslugreina og var hverjum flokki veittar 450.000 kr. Í flokknum með félagi okkar voru fjögur virk fagfélög: Félag kennara í siðfræði og trúarbragðafræðum,  Félag heimspekikennara kristnum fræðum, Samtök sálfræði- og uppeldisfræðikennara og Félag sögukennara. Þar sem félag sögukennara sótti ekki um styrkinn þá deildist hann á fjögur félög og fengum við 112.500 kr. í styrk. Sum félög virðast hafa verið ein í kennsluflokki og fengu því í styrk 450.000 kr. Þetta á t.d. við um Samtök kennara í viðskipta- og hagfræðigreinum og Félag hársnyrtikennara.

Stjórn Félagsins hefur í þrígang lagt fram formlegar fyrirspurnir til ráðuneytis um þessi mál en fyrirspurnunum hefur ekki verið svarað nema að litlu leyti.

Auk þessa hefur félagið átt í viðræðum við ráðuneytið vegna styrks fyrir síðasta skólaár en við höfum ekki fengið þann styrk greiddan. Það bíður komandi stjórnar að halda áfram vinnu í þessum málum.

Samskipti félagsins við ráðuneyti og Endurmenntunarstofnun einkennast þó ekki einvörðungu af átökum. Verið er að undirbúa að á næsta ári verði vettvangsnám Endurmenntunar haldið í samráði við félög félagsgreinakennara. Því ber að fagna.

  1. Önnur mál

Fyrir utan starf stjórnar við ráðstefnur, endurmenntunarnámskeið og að hafa misgóð samskipti við stjórnvöld hefur stjórnin rætt um skipulag þessa aðalfundar, rætt um áhrif nýrra framhaldsskólalaga á stöðu félagsfræðinnar, unnið að gerð nýrrar heimasíðu fyrir félagið, unnið að gerð nýs póstfangalista, tvisvar gert tillögur um styrkröðun umsókna vegna styrkja til námsefnigerða, rætt um ráðstefnur sem gætu komið henni að gagni að sækja en þrátt fyrir að hafa fengið gott boð um að sækja ráðstefnu um félagsfræðikennslu í breskum framhaldsskólum varð ekki að neinni för þetta kjörtímabilið frekar en þau fyrri.

Að lokum má nefna að stjórn félagsins fékk beiðni frá menntamálanefnd Alþingis að veita umsögn um tillögu til þingsályktunar um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Stjórnin sendi umsögn sína í byrjun janúar og lagði eindregið til að tillagan yrði felld. Umsögn stjórnarinnar mun liggja frammi á þessum fundi.

Allar nánari upplýsingar um starf stjórnar má sjá í fundargerðarbók félagsins en hún er geymd í FÁ og er opin félagsmönnum.

Mikill tími fer í stjórnarstörf og eru þau að aukast fremur en minnka. Stjórnin sér ekki eftir þeim tíma enda hefur hann verið mjög gefandi. Hins vegar hafa stjórnarmenn all nokkurn kostnað af starfi sínu og  nægir þar að benda á akstur og síma. Stjórnin hefur því ákveðið að hverjum stjórnarmanni verði greiddar 5000 kr. upp í kostnað á ári hverju og að þetta verði gert frá aðalfundi 2006 þegar tekið var upp tveggja ára kjörtímabil stjórnarinnar. Væntanlega má sjá þetta í þeim ársreikningum sem gjaldkeri félagsins mun kynna rétt strax.

Reykjavík, 25. febrúar 2011
Hannes Í Ólafsson 

 

Heiðursformaður Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum

Eftir að hafa flutt skýrslu stjórnar 25. febrúar árið 2011 kynnti Hannes Ísberg Ólafsson að Garðar Gíslason ætlaði ekki að bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Það væri tillaga stjórnar að Garðar Gíslason yrði skipaður heiðursformaður Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum og fylgdi Hannes því með eftirfarandi orðum“

„Garðar Gíslason var fyrst kosinn í stjórn félagsins 2. júní 1988 og hefur starfað þar síðan, sleitulaust í 23 ár. Hann var kosinn formaður félagsins 25. sept. 1991 og var formaður þess út árið 2005 eða í tæp 15 ár.

Það var í hans formannstíð sem félagið hélt sitt fyrsta endurmenntunarnámskeið í Washington sumarið 1993, eitt fyrsta fagfélagið til að halda námskeið í útlöndum. Í stjórnartíð hans hefur félagið haldið endurmenntunarnámskeið á hverju ári (þar af í sex skipti í útlöndum) og ég leyfi mér að fullyrða að ekkert fagfélag kennara er jafn virkt og félagið okkar.

Það segir svolítið um kraft Garðars í þessu stjórnarstörfum hans að flestir halda að hann sé enn formaður félagsins og mér finnst ég alltaf verða eitthvað lítill þegar ég stend við hliðina á honum og reyni að leiðrétta viðmælendur okkar um að það sé nú ég sem hafi það embætti eftir að Garðar nennti því ekki lengur.

Stjórn félagsins hefur ákveðið að sæma Garðar Gíslason, fyrstum manna „nælu félagsins“ og leggur einnig til að félagsmenn samþykki að hann fái um leið nafnbótina „Heiðursformaður Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum“. Heiðursformaður hefur rétt til setu á stjórnarfundum og rétt til að sækja alla viðburði félagsins og stjórnar þess án allrar ábyrgðar af hans hálfu“

Tillagan var samþykkt með lófataki um leið og gjaldkerinn Björk nældi í hann nælu.