Skýrsla stjórnar 2011 - 2013

Skýrsla stjórnar Félags félagsfræðinga í framhaldsskólum tímabilið feb. 2011- apríl 2013

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn í Sægreifanum, Geirsgötu 8, Reykjavík 25. febrúar 2011.
 
Á fundinum kynnti Hannes Í Ólafsson skýrslu stjórnar og Björk Þorgeirsdóttir kynnti ársreikninga sem voru samþykktir. Í stjórn félagsins voru endurkjörin Hannes Í Ólafsson, FÁ, og Björk Þorgeirsdóttir, Kvennó. Garðar Gíslason gekk úr stjórn og í hans stað var kjörin Aðalheiður Dröfn, MH. Í varastjórn voru kjörin Hulda Hlín Ragnars og Leifur Ingi Vilmundarson. Erlingur Hansson var endurkjörinn endurskoðandi félagsins.
 
Fyrsti fundur stjórnar var haldinn 16. mars 2011. Stjórnin skipti með sér verkum: Hannes Í Ólafsson formaður, Björk Þorgeirsdóttir gjaldkeri og Aðalheiður Dröfn ritari.
 
Á tímabili núverandi stjórnar hafa verið haldnir fimmtán skráðir fundir og allmargir óskráðir.
 
Helstu verkefni stjórnarinnar á tímabilinu voru eftirfarandi:
 
 
 1. Endurmenntunarnámskeið og ráðstefnur:
   
  Fundað var um endurmenntunarnámskeið og ráðstefnur sem félagið skipulagði og stóð fyrir á síðasta kjörtímabili. Meginafurðir funda um endurmenntunarnámskeið og ráðstefnur eru:
   
  Sumarið 2011 stóð félagið fyrir endurmenntunarnámskeiði í Færeyjum sem var haldið 6.- 10. júní. Fararstjóri var Jón Ingi Sigurbjörnsson en þátttakendur voru 24.
   
  Þann 6. mars 2012 hélt félagið ráðstefnu með Sigríði Víðis og palestínskum flóttakonum um líf flóttamanna. Sextán manns mættu á ráðstefnuna (en sex létu ekki sjá sig þrátt fyrir að hafa boðað komu)
   
  Félagið hélt endurmenntunarnámskeið 16.-17. ágúst 2012 um rannsóknaraðferðir í félagsvísindum. 24 mættu.
   
  Í framhaldi þessa námskeiðs var haldið örnámskeið um gagnagrunna 26. október 2012. Sex mættu á það námskeið.
   
  Í dag og á morgun, 5. – 6. apríl, heldur félagið í samvinnu við Samtök áhugafólks um skólaþróun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Samtök sálfræði- og uppeldisfræðikennara ráðstefnu um skapandi skólastarf. Skráðir þátttakendur á námskeiðinu eru yfir 100.
   
  Björk Þorgeirsdóttir hefur verið aðalumsjónarmaður endurmenntunanámskeiðanna en stjórn félagsins hefur séð um undirbúning að skipuleggja dagskrá.
   
 2. Samskipti við menntamálaráðuneyti.
   
  Mestur tími stjórnar fer í að undirbúa ráðstefnur og endurmenntunarnámskeið en allmikill tími fer líka í að semja umsóknir um styrki og skrifa skýrslur til ráðuneytis um starf félagsins. Á síðasta aðalfundi var greint frá erfiðum samskiptum félagsins við mennatamálaráðuneytið. Á þeim fundi var þannig samþykkt stuðningstillaga við stjórnin félagsins í baráttu hennar um styrki til félagsins.
   
  Í framhaldi aðalfundar sendi formaður félagsins bréf til menntamálaráðuneytis og ítrekaði þar óánægju með úthlutunarreglur styrkja. Í svarbréfi sem barst til okkar í sept. 2011 má lesa að ráðuneytið hafi í framhaldi kvartana okkar ákveðið að í stað þess að félagið okkar fengi 1/5 af styrk hársnyrta og hagfræðikennara þá fengjum við ½ styrk þeirra. Stjórnin gerði strax skriflegar athugasemdir við þetta auk þess sem hringt var í ráðuneytið til að láta í ljós óánægju okkar. Í framhaldinu fengum við styrk fyrir skólaárið 2011-2012 200.000 kr. (eins og ráðuneytið hafði tilkynnt). Á þessu skólaári (2012-2013) fékk félagið svo sama styrk og öll önnur fagfélög, 150.000 kr., og virðist þar með horfið frá mismunun félaga með því að láta þau öll hafa lágan styrk.
   
 3. Samskipti við Endurmenntun HÍ
   
  Á yfirstandandi kjörtímabili hafa samskipti við Endurmenntunarstofnun verið með nokkuð eðlilegum hætti. Stjórnarmenn hafa sótt sérstaka formannafundi og námskeið hjá Endurmenntunarstofnun. Þeir hafa skipt þessum þætti starfsins á milli sín og á yfirstandandi kjörtímabili mætti formaður á tvær slíkar samkomur og gjaldkeri og ritari mættu einu sinni. Á þessum fundum er rætt um fagleg málefni og um endurmenntunarnámskeið fyrir kennara.
   
  Nú hefur Endurmenntunarstofnun hætt að sjá um styrkveitingar til námskeiða og Rannís tekið við þeim hluta starfseminnar. Þessi breyting olli því að mikil töf varð á móttöku og afgreiðslu beiðna um endurmenntunarnámskeið nú í sumar en reynslan mun skera úr um hvort þessi tilhögun verður til bóta.
   
 4. Önnur mál
    
  Fyrir utan starf stjórnar við ráðstefnur, endurmenntunarnámskeið og samskipti við stjórnvöld hefur stjórnin rætt um skipulag þessa aðalfundar, rætt um áhrif nýrra framhaldsskólalaga á stöðu félagsfræðinnar, unnið að gerð nýrrar heimasíðu fyrir félagið, unnið að gerð nýs póstfangalista, rætt um alþjóðlegar ráðstefnur sem gætu komið félaginu að gagni og á síðasta ári gerði félagið tillögu um styrkröðun umsókna vegna styrkja til námsefnigerða. Styrkröðun umsókna hefur nú verið tekin úr höndum fagfélaga og færð frá ráðuneytinu og yfir til Rannís. Rannís leitar svo sjálft eftir fagfólki til að meta umsóknir.
   
  Félagið hefur átt í samstarfi við önnur samtök:
   
  Í janúar á þessu ári sóttu Hannes og Björk fund með námsstjórn um menntun framhaldsskólakennara við HÍ vegna framtíðar framhaldsskólakennara menntunar. Á fundinum leitaði námsstjórn eftir hugsanlegum hugmyndum okkar um áfanga sem rétt væri að bjóða upp á á Félagsvísinda – og menntasviði HÍ.
   
  Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur verið í sambandi við félagið og óskaði m.a. eftir áliti okkar á því hvers vegna lítið væri kennt um þróunarlönd í grunn- og framhaldsskólum. Erindi þeirra var sinnt með því að benda á að mikið væri kennt um þróunarlönd í félagsfræði.
   
  Félagið hefur átt í viðræðum við Félag Félagsfræðinga um meira samstarf félaganna. Starfið í félaginu hefur ekki aðeins verið á herðum stjórnarinnar. Þannig er Leifur Ingi Vilmundarson fulltrúi félagsins varamaður í skólanefnd Félags Framhaldsskólakennara, Magnús Ingólfsson var fulltrúi félagsins um gerð viðmiðunarramma um samfélagsgreinar í framhaldsskólum, Hulda Hlín Ragnars var fulltrúi félagsins í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar sem fer fram í dag og á morgun um skapandi skólastarf og Magnús Gíslason er umsjónarmaður heimasíðu félagsins.
   
  Magnús hefur nú samið við vefsíðufélagið Emstrur um gerð heimasíðu fyrir félagið.
 
Reykjavík, 5. apríl 2013
Hannes Í Ólafsson