Skýrsla stjórnar 2013-2015

Skýrsla stjórnar Félags félagsfræðinga í framhaldsskólum
tímabilið apríl 2013 – maí 2015

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 5. apríl 2013 í Café París. Á fundinum kynnti Hannes Í Ólafsson skýrslu stjórnar og Björk Þorgeirsdóttir kynnti ársreikninga sem voru samþykktir. Í stjórn félagsins voru endurkjörin Hannes Í Ólafsson FÁ, Björk Þorgeirsdóttir, Kvennó og Aðalheiður Dröfn MH. Í varastjórn voru kjörnir Guðmundur Gíslason FG og Leifur Ingi Vilmundarson MS. Erlingur Hansson var endurkjörinn endurskoðandi félagsins.

Fyrsti fundur stjórnar var haldinn 30. maí. Stjórnin skipti með sér verkum: Hannes Í Ólafsson formaður, Björk Þorgeirsdóttir gjaldkeri og Heiða ritari. Í beinu framhaldi þess fundar var sent út fréttabréf þar sem sagt var aðalfundinum og starfinu framundan.

Þann 23. september 2014 sagði Heiða sig svo frá stjórnarstörfum af persónulegum ástæðum. Henni eru hér með þökkuð óeigingjörn störf í þágu félagsins og stjórnin ber þá von í brjósti að hún muni halda áfram að láta að sér kveða fyrir félagið.

Guðmundur Gíslason tók við stöðu Heiðu sem ritari félagsins.

Á tímabili núverandi stjórnar hafa verið haldnir níu skráðir fundir og nokkrir óskráðir.

Helstu verkefni stjórnarinnar á tímabilinu voru eftirfarandi:

  • Þann 12.-13. ágúst 2013 stóð félagið fyrir endurmenntunarnámskeiðinu „Alþjóðastjórnmál, samfélagsmiðlar og kennslufræði“. 38 kennarar voru skráðir á námskeiðið og fyrirlesarar voru alls sjö auk þess sem þrír félagar sögðu frá grunnþáttum menntunar og reynslu sinni af því að nota samfélagsmiðla í kennslu.
     
  • Sama ár 22. nóvember, hélt félagið ráðstefnu um breyttar leiðir í kennslu og um nýjar kennslubækur. Á ráðstefnunni hélt Peter Anderson erindi um félagsfræðikennslu með augum nemandans og um nýjar leiðir í kennslu auk þess sem þrír framhaldsskólakennarar sögðu frá nýjum námsbókum sínum í félags- og stjórnmálafræði.
     
  • Þann 30. maí 2014 var félagið síðan með ráðstefnu í Sægreifanum. Þar ræddi Bogi Ágústsson um skosk stjórnmál og Björk Þorgeirsdóttir sagði frá fyrirhuguðu endurmenntunarnámskeiði í Glasgow.
     
  • Síðan var komið að endurmenntunarnámskeiðinu „Menning og stjórnkerfi Skotlands.“
     
  • Námskeiðið fór fram í Glasgow og Edinborg 8.-12. júní 2014. Boðið var upp á skólaheimsóknir, skoska þingið, stofnun fyrir ungmenni sem eru í skoskum gengjum, BBC í Skotlandi, Stirling Kastala og ýmis söfn. Skráðir þátttakendur voru 24 og á heimasíðu félagsins má sjá myndir frá námskeiðinu.
     
  • Stjórn félagsins hefur svo skipulagt endurmenntunarnámskeið í ágúst um „Mannréttindi, minnihlutahópa og forréttindastöður.“

Mestur tími stjórnar fer í að undirbúa ráðstefnur og endurmenntunarnámskeið en allmikill tími fer líka í að semja umsóknir um styrki og skrifa skýrslur til stjórnvalda. Stundum hefur stjórnin lent í átökum við samstarfsaðila en á síðasta stjórnartímabili ríkti tiltölulega góð sátt milli okkar og annarra.

Á síðustu tveimur árum hefur félagið fengið 150.000 kr. styrk á hvoru ári. Er það sama upphæð og önnur fagfélög fá en þessi fjárhæð hefur nú verið óbreytt í þrjú ár.

Félagið fær einnig styrk frá Rannís í gegnum SEF (Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara). Styrkirnir frá Rannís eru notaðir í ráðstefnuhald og endurmenntunarnámskeið.

Fyrir utan starf stjórnar við ráðstefnur, endurmenntunarnámskeið og samskipti við stjórnvöld hefur stjórnin rætt um skipulag þessa aðalfundar, rætt um áhrif nýrra framhaldsskólalaga og kjarasamninga á stöðu félagsfræðinnar og unnið að viðhaldi heimasíðu félagsins. Formaður félagsins sækir árlega samstarfsfundi með skólamálanefnd Félags framhaldsskólakennara og með SEF.

Starfið í félaginu er ekki aðeins á herðum stjórnarinnar. Þannig tilnefndi félagið Leif Inga Vilmundarson fulltrúa félagsins í skólanefnd Félags Framhaldsskólakennara. Magnús Gíslason hefur verið umsjónarmaður heimasíðu félagsins. Aðrir félagar hafa síðan komið að undirbúningi ráðstefna og endurmenntunarnámskeiða.

Reykjavík, 8. maí 2015
Hannes Í Ólafsson