Aðalfundur 25. ágúst 2023 Skýrsla stjórnar Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum 5. júní 2021 – 25. ágúst 2023

 

Ágætu fundargestir!

Síðasti aðalfundur félagsins var 5. júní 2021. Þar voru kosin í stjórn G. Rósa Eyvindardóttir, Eyrún Magnúsdóttir og Júlía Björnsdóttir (sem kom ný inn) – í aðalstjórn - ásamt Krisjáni Leifssyni og Helga Hermannsyni (sem kom nýr inn) í varastjórn. Sigrún Fjóla og Hannes Í Ólafsson sátu í fráfarandi stjórn. Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar, G. Rósa Eyvindardóttir formaður, Júlía Björnsdóttir ritari og Eyrún Magnúsdóttir gjaldkeri. Björk Þorgeirsdóttir var kosin endurskoðandi reikninga.

Síðast liðið sumar baðst gjaldkeri félagsins Eyrún Björg lausnar frá störfum vegna anna. Það varð úr að formaður félagsins tók að sér að hlaupa í skarðið og tók formlega við þeirri vinnu en Kristján varamaður myndi síðan taka við í byrjun þessa árs. Formleg gjaldkeraskipti áttu sér þó ekki stað og var verkefnið á höndum formannsins út tímabilið.

Ný stjórn hélt 12 formlega stjórnarfundi, fyrir utan óteljandi óformlega fundi, símtöl og tölvupóstasamskipti.

Vinna og fundir stjórnarinnar hafa snúist um skipulagningu á málþingum og námskeiðum, halda utan um félagatal, og fjárhag félagsins, heimasíðan og umsóknum í sjóði.

Byrjuðum á því að halda framhaldssumarnámskeið í 2021, sem haldið var í september í húsakynnum KÍ og bar yfirskriftina Lýðræði í skólastofunni. Kristján hélt þar erindi, að auki fengum við heimsókn frá nemanda og kennara úr stjórnmálafræðideild HÍ sem gáfu okkur innsýn inn í Lýðræðishandbókina.

Við héldum málþing að vori 2022, í mars, yfirskriftin var Jafnrétti, kynjafræði og kennarinn. Þorgerður Einarsdóttir prófessor HÍ hélt erindi á málþinginu og einnig var unnið í umræðuhópum.

Sumarnámskeiðið okkar 2022 var haldið á ágúst, stóð yfir í tvo daga og fór fram í húsakynnum FÁ. Yfirskriftin var Kennarinn og kynjafræðin/samtal milli skólastiga. Námskeiðið hófst með því að Gylfi Zoega, hagfræðingur, hélt erindi um áhrif styttingar framhaldsskólans. Við fengum kennara úr öllum félagvísindafögum sem kennd eru í HÍ til okkar, Helgi Gunnlaugsson, Arnar Eggert, Sigrún Ólafsdóttir, Eva H. Önnudóttir og Þorgerður Einarsdóttir, hvert og eitt þeirra var með stutt innlegg og í kjölfarið panell og umræður. Þar áttu sér stað ágætar samræður milli framhaldsskólakennara og háskólakennarana – við finnum vel hvað þetta er brýnt, að samtal eigi sér stað á milli skólastiga. Seinni daginn voru Gyða Margrét prófessor í kynjafræði, Eygló verkefnastýra Stígamóta og Þórður Kristinsson með erindi og í panel undir viðfangsefninu kennarinn og kynjafræðin, og þar spunnust einnig mjög góðar umræður. Að auki sáu Rósa og Júlía um vinnuhópa og verkstæði þar sem unnið var með þema námskeiðsins. Námsefniskynningar voru einnig á dagskrá. Mjög þarft viðfangsefni og áhugavert sumarnámskeið.

Síðan stóð sumarnámskeið erlendis fyrir dyrum. Skipulagning hófst í byrjun árs 2022 og tók formaður félagsins að sér að stýra þeirri vinnu. Auglýst var eftir áhugasömum í ferðanefnd og Hanna Björg og Gunnar Hólmsteinn tóku að sér að sitja í ferðanefnd, ásamt formanni. Við fórum s.s. þá leið að sækja til félaga um að taka þátt í skipulagningu. Námsferð af þessu tagi er heljarinnar skipulag sem krefst mikilar vinnu bæði fyrir og eftir heimkomu. Ákveðið hafði verið 2020, þegar skipulagning erlendrar námsferðar hófst, að sækja heim Belfast. Þráðurinn var því tekinn upp að nýju með þema og samstarfsaðila. Yfirskriftin var Lýðræði, umrót og átakamál. Í stuttu máli sagt þá var þetta vel heppnuð ferð. Hún stóð yfir í fimm daga og við fengum fyrirlestra frá Lesley Emerson, kennara í Queens University, Denver Charles, framhaldsskólakennara í Magherafelt High, Paul Smyth frá Politics in Action ásamt innsýn inn í nemendafélag í Queens. Fórum í skólaheimsóknir, heimsóttum þingið og fengum innsýn inn í pólitísk átök í pólitískri göngu með leiðsögn um hverfi Belfast. Félagslegi þátturinn var einnig sterkur, þátttakendur héldu hópinn og var saman á kvöldin og fóru út að borða – það var mikið spjallað og glaðst.

Tveir stjórnarmeðlimir sóttu ráðstefnu á vegum Euroclio á vormánuðum 2022 og 2023 og sat formaður fyrir hönd félagsins aðalfundi í tengslum við ráðstefnuna. Eins og kunnugt er þá erum við með félagsaðlid að Euroclio, sem eru Evrópusamtök sögu- og félagsfræðikennara og fræðimanna.

Formaður stjórnar sótti málþing á vegum Skólamálanefndar KÍ í maí í fyrra en þar var m.a. farið yfir þjónustu við faggreinafélögin, styrkjamál og hlutverk skólamálanefndar KÍ. Eins sótti formaður fund á vegum nefndarinnar varðandi stjórnarskipan og áherslur Skólamálanefndar næstu fjögur árin.

Við sóttum um alls einn styrk til að halda sumarnámskeiðið 2022 og annan fyrir sumarnámskeið erlendis, Belfast, ráðstefnustyrk og fyrirlestrastyrk bæði árin 2022 og 2023. Við höfum fengið vilyrði fyrir styrk í öll skiptin og fengið styrkinn við uppgjör. Enda byggir félagið á traustri og faglegri vinnu sem stjórnir félagsins hafa stuðlað að með faglegri, skilvirkari og metnaðarfullri vinnu gegnum árin.

Við höfum átt við tæknilegar áskoranir. Heimasíðan datt niður á tímabili á síðasta ári, eða var hökkuð. Helgi varamaður tók að sér að koma henni aftur á legg. Eins var lokað fyrir tölvupóst félagsins í dágóðan tíma í fyrra og höfðum við því ekki aðgang að vinnusvæði og tölvupósti á meðan. Við gripum þá til samskipta gegnum Teams og vinnunetföngin okkar á meðan. Þetta er allt komið í lag þegar þetta er ritað í ágúst 2023.

Við fórum í vinnu við félagatalið. Sú vinna er framhaldsverkefni ár hvert en reglulega þarf að fara í vinnu við að ná til nýrra kennara sem áhuga hafa á starfinu. Endurnýjun í félaginu er brýnt, að hafa upp á nýjum félögum.

Mér er virkilega annt um þetta félag. Ég hef lagt mig fram um að standa mig – ég tel að þessi vettvangur sé óheyrilega mikilvægur fyrir okkur kennara að geta sótt fróðleik og endurmenntað okkur í þessum heimi sem sífellt býður upp á nýjar áskoranir.

Reykjavík 25. ágúst 2023

G. Rósa Eyvindardóttir

Formaður