Skýrslur stjórnar 2019-2021

Aðalfundur 5. júní 2021
Skýrsla stjórnar Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum 17. maí 2019 – 5. júní 2021
Ágætu fundargestir!
Það hefur gengið á ýmsu hjá okkur síðustu misseri og hefur verið áskorun að taka þátt í félagsstörfum. Við í okkar félagi höfum ekki farið varhluta af því.
Síðasti aðalfundur félagsins var 17. maí 2019. Þar var kosin ný stjórn en í fráfarandi stjórn sátu Hannes Í. Ólafsson FÁ formaður, Björk Þorgeirsdóttir Kvennó gjaldkeri og Guðmundur Gíslason FG ritari, í varastjórn Þórunn Steindórsdóttir MS og María Benedikstdóttir. Nýkjörin stjórn skipti með sér verkum á fundi með fráfarandi stjórn 7. júní 2019, G. Rósa Eyvindardóttir formaður, Kristján P. K. Leifsson FÁ ritari og Eyrún Magnúsdóttir gjaldkeri. Að auki sátu Sigrún Fjóla Hilmarsdóttir FG og Hannes Í Ólafsson FÁ i varastjórn. Björk Þorgeirsdóttir var kosin endurskoðandi reikninga og tók við af Erlingi Hanssyni.
Eins og sjá má þá var alger endurnýjun á aðalmönnum í stjórn, en Hannes Ísberg Ólafsson var fyrst kosinn í stjórn félagsins árið 1994 og hafí því starfað í stjórn félagsins í 25 ár. Guðmundur Gíslason tók við starfi ritara félagsins í september árið 2014 og starfaði meira en tvö  kjörtímabil í stjórninni. Björk Þorgeirsdóttir var fyrst kosin í stjórn árið 2002 og starfaði þá sem ritari en eftir aðalfund árið 2003 sem gjaldkeri. Hún starfaði 17 ár í stjórninni.
Það var því gott að hafa Hannes í varastjórn og innanbúðar og Björk sem endurskoðandi reikninga og höfum við notið þeirra við, sérstaklega fyrri part tímabilsins þegar við nýgræðingarnir í stjórn vorum að kynnast starfinu og aðalaga okkur að verkefnum stjórnar. Ný stjórn tók við 2019 og var fráfarandi stjórn innan handar við sumarnámskeiðið það árið sem fráfarandi stjórn skipulagði og var þeirra síðasta verk, það fór fram í samstarfi við Endurmenntun 13. og 14. ágúst 2019.
Ný stjórn hélt 10 formlega stórnarfundi, fyrir utan óteljandi óformlega fundi, símtöl og tölvupóstasamskipti.
Byrjuðum á því að skipuleggja námsferð erlendis og var stefnt á að fara í byrjun júní 2020 til Belfast. Þema var lýðræði og klofið samfélag. Við hittumst í janúar 2020 á fundi og sóttum um styrk fyrir ferðina, Björk Þorgeirsdóttir var með okkur á þeim fundi og leiddi okkur í gegnum styrkja-umsóknarfrumskóginn. Við auglýstum námsferðina og viðtökur voru góðar; í febrúar voru komnir um 20 manns skráðir í ferðina og í mars voru allir nema 2 búnir að greiða stafestingargjald.
Við lögðum mikla vinnu í að skipuleggja þetta, vorum komin með tengsl við þrjá aðila í háskólasamfélaginu í Belfast, sem yrðu fyrirlesarar og meðskipuleggjendur. Í apríl héldum við fund þar sem við neyddumst til að fresta ferðinni – í júní, þegar bjartsýnin óx á ný funduðum við með það í huga að mögulega flytja ferðina til haustsins. Við vitum hvernig fór með sjóferð þá. Þetta var töluvert svekkjandi.
Frá apríl voru stjórnarfundir fjarfundir, sem kom sér einstaklega vel þegar stjórnarmeðlimir eru staðsettir í ólíkum landshlutum.
Í júní ákváðum við að láta ekki deigan síga og hófum að skipuleggja haustmálþing, á þeim tíma vissum við ekki hvort það yrði stað eða fjar-málþing. Hittumst á þremur fundum í október til að skipuleggja október ráðstefnu.
30. okt 2020 héldum við svo málþingið, í sal KÍ í Borgartúni. Lýðræði meðal framhaldsskólanema. Frá fræðslu að framkvæmd. Valgerður S. Bjarnadóttir nýdoktor fjallaði um lýðræðislega kensluhætti, Eva H. Önnudóttir dósent í stjórnmálafræði fjallaði um pólitíska þátttöku unga fólksins okkar út frá fræðilegu sjónarhorni og Sara Þöll Finnbogadóttir og Eva Laufey BA nemar í stjórnmálafræði kynntu fyrir okkur Lýðræðishandbókina, verkefni sem fékk styrk í fyrra. Við Kristján ritari mættum í sal KÍ en aðrir tóku þátt rafrænt, og voru rúmlega 20 manns sem tóku þátt.
Stjórnin fundaði í janúar og febrúar á þessu ári, 2021, og skipulagði málþing sem við héldum 27. febrúar 2021. Aftur nýttum við góða aðstöðu hjá KÍ aftur. Stjórnin hóf einnig skiplagningu sumarnámskeiðsins, og m.a. voru pantaðir bústaðir og fundarsalur á Flúðum í febrúar.
Á málþinginu 27. febrúar var okkur var hugleikið afleiðingar ástandsins fyrir kennara, Súsanna Margrét fjallaði um rannsóknir á kennslu í faraldri og hvað megi læra af reynslunni, einnig mætti Guðjón Hauksson formaður FF og fjallaði um kjarmál. Á þeim tíma voru kennarar búnir að leggja töluvert meira á sig en í venjulegu árferði og voru að velta fyrir sér hvort eitthvað ætti að koma til móts við stéttina fjárhagslega. Að lokum fengum við fyrirlestur um sálræna velferð frá Sigrúnu Björnsdóttur sérfræðingi vinnuumhverifs hjá KÍ. Nokkrir mættu á staðinn, en fleiri voru rafrænt og milli 25 og 30  manns tók þátt í það heila.
Formaður félagsins tók þátt í aðalfundi Euroclio á vormánuðum 2020 og 2021 og voru báðir fundir rafrænir.
Það stóð til að senda tvo stjórnamenn á ráðstefnu Euroclio í apríl 2020 til Serbíu en ráðstefnunni var slegið á frest og óvissa ríkti lengi vel um hvernig ætti að framkvæma hana, að lokum var ákveðið að hafa hana rafræna og var hún haldin í byrjun nóvember 2020. Við vorum nokkur sem tókum þátt á rafrænum fundum, vel sipulagt og áhugavert.
Stjórnin hefur fundað óteljandi sinnum varðandi sumarnámekiðið sem fer fram í tengslum við þennan aðalfund á Flúðum og er heitið á þeirri ráðstefnu Áskoranir í framtíðar samfélagi og breyttu náms- og starfsumhverfi framhaldsskólakennara. Námskeiðið tókst vel enda flottir fyrirlesarar, sem skiluðu miklum og nothæfum fróðleik til þátttakenda. Þar má nefna Hrönn og Svanhlidi Ólafsdóttir sem fjölluðu um kulnun og sálræna velferð, Gurún Ragnarsdóttir, Súsanna Margrét Gestsdóttir og Hjördís Þorgeirsdóttir sem fjölluðu um rannsóknir á líðan kennara í faraldrinum og starfendarannsóknir. Einnig fengum við námsefniskynningar.
Félagið samþykkti að vera þátttakandi í Lýðræðishandbókinni, ásamt SÍF, umsjón þess er í höndum dósents í stjórnmálafræðideild HÍ. Verkefnið á að stuðla að og íta undir pólitíska þátttöku unga fólksins okkar.
Það sem stjórninni þykir brýnt að leggjast yfir er heimasíðan. Hana þarf að skoða nánar. Ritari leggur til að aðrir kostir verði nýttir. Þær forsendur sem lágu að baki vali á hýsingu og formi síðunnar á sínum tíma eru ekki fyrir hendi miðað við núverandi notkun síðunnar. Hagkvæmari og meðfærilegir kostir eru til staðar og ætti að vera tiltölulega lítið mál að breyta til og halda léninu áfram.

Einnig telur formaður að endurnýjun í félaginu sé brýnt, að hafa upp á nýjum kennurum og bjóða í félagið. Sú vinna ætti að hefjast í haust.
Í ljósi þess sem hefur dunið á okkur í kennarastéttinni fannst okkur tilvalið að halda sumarnámskeiðið okkar á Flúðum. Þannig gætu félagsmenn komið á námskeið í öðru umhverfi og styrkt tenglsin líka. Við héldum okkar striki þó óvissan væri til staðar, og erum við fegin að þetta varð að veruleika.
Að lokum vil ég segja að þrátt fyrir mótlæti og áskoranir hefur það verið ánægjulegt að starfa fyrir fagfélagið okkar, samstarf og hjónaband okkar í stjórninni hefur verið mjög gott, enda erum við félagsgeinakennarar! Við tókum við fjörugu og öflugu búi og höfum reynt eftir fremsta megni að láta ekki deigan síga. Við þurfum að efla okkur góða félag og okkur félagsfræðikennara og standa vörð um okkar góða starf og tengsl.
 
5. júni 2021
G. Rósa Eyvindardóttir