Þriðjudagur, 22. March 2011 - 10:15

Fréttabréf 21. mars 2011

Í þessu fréttabréfi segir frá aðalfundi félagsins, ráðstefnu og væntanlegu endurmenntunarnámskeiði

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins var haldinn 25. febrúar og sóttu hann fjórtan félagsmenn. Dagskrá fundarins var með hefðbundnum hætti: Skýrsla stjórnar, ársreikningar, stjórnarkjör og önnur mál.

Skýrsla stjórnar
Hannes kynnti skýrslu stjórnar en í fráfarandi stjórn sátu Hannes formaður, Garðar ritari og Björk gjaldkeri. Stjórnin hélt nítján skráða fundi og mun fleiri óskráða.

Helstu verkefni stjórnarinnar á tímabilinu sneru að skipulagningu og umsjón endurmenntunarnámskeiða og ráðstefna en félagið stóð að endurmenntunarnámskeiði 13.-14. ágúst 2009 um frávik og afbrot og hæfniviðmið í félagsgreinum, endurmenntunarnámskeiði í samvinnu við Félag sögukennara um mannréttindi og mannréttindanám á Hvanneyri 11.-13. ágúst 2010, ráðstefnu 23. okt. 2009 um jafnréttisfræðslu og skipulag félagsfræðikennslu í Kvennaskólanum og loks ráðstefnu sem haldin var í kjölfar aðalfundarins og verður gerð grein fyrir henni hér á eftir.

Á nokkrum fundum stjórnar var rætt um samskiptaörðugleika við Endurmenntunarstofnun HÍ en nokkur tortryggni hefur ríkt í samskiptum við þá stofnun allt síðan hún hafnaði fyrir þremur árum að styrkja endurmenntunarnámskeið okkar í Eistlandi. Stofnunin endurskoðaði síðan ákvörðun sína en það hefur ekki breytt því að stjórn félagsins hefur oft lýst yfir efasemdum um hvernig stofnunin ver fé sínu. Stjórn félagsins er ekki heldur sátt við nýtt fyrirkomulag á styrkveitingum ráðuneytisins til fagfélaga. Verklag ráðuneytis nú er nokkuð flókið en byggist upp á því að stofnaðir voru 22 flokkar kennslugreina og var hverjum flokki veittar 450.000 kr. Í flokknum með félagi okkar voru fjögur virk fagfélög: Félag kennara í siðfræði og trúarbragðafræðum,  Félag heimspekikennara, Samtök sálfræði- og uppeldisfræðikennara og Félag sögukennara. Þar sem Félag sögukennara sótti ekki um styrkinn þá deildist hann á fjögur félög og fengum við 112.500 kr. í styrk. Sum félög virðast hafa verið ein í kennsluflokki og fengu því í styrk 450.000 kr. Þetta á t.d. við um Samtök kennara í viðskipta- og hagfræðigreinum og Félag hársnyrtikennara.

Samskipti félagsins við ráðuneyti og Endurmenntunarstofnun einkennast þó ekki einvörðungu af átökum. Verið er að undirbúa að á næsta ári verði vettvangsnám Endurmenntunar haldið í samráði við félög félagsgreinakennara.

Fyrir utan starf fráfarandi stjórnar við ráðstefnur, endurmenntunarnámskeið og að hafa misgóð samskipti við stjórnvöld fjallaði stjórnin um ýmis mál en gerð var grein fyrir þeim á aðalfundinum. Nefna má að stjórn félagsins fékk beiðni frá menntamálanefnd Alþingis að veita umsögn um tillögu til þingsályktunar um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Stjórnin sendi umsögn sína í byrjun janúar og lagði eindregið til að tillagan yrði felld.

Undir lok skýrslu sagði Hannes að stjórn félagsins hefði ákveðið að sæma Garðar Gíslason fyrstan manna „nælu félagsins“ og bar upp tillögu um að hann yrði gerður að heiðursformanni. Hannes benti á að Garðar hefði fyrst verið kosinn í stjórn félagsins 2. júní 1988 og hefði verið formaður félagsins 25. sept. 1991 og út árið 2005. Hannes benti á að í formannstíð Garðars hefði félagið haldið sitt fyrsta endurmenntunarnámskeið í útlöndum sumarið 1993 og síðan hefði félagið haldið endurmenntunarnámskeið á hverju ári (þar af í sex skipti í útlöndum). Ekkert fagfélag kennara hefði verið jafnvirkt og Félag félagsfræðikennara þau ár sem Garðar hefði verið við stjórn í félaginu.

Fundurinn samþykkti að Garðar yrði heiðursformaður Félags félagsfræðikennara í  framhaldsskólum og hefði rétt til setu á stjórnarfundum og rétt til að sækja alla viðburði félagsins og stjórnar þess án nokkurar ábyrgðar af hans hálfu. Hann mun væntanlega bera næluna á þeim fundum sem hann sækir.

Ársreikningar
Björk kynnti ársreikninga sem voru samþykktir.
          
Stjórnarkjör
Garðar gekk úr stjórn en í stað hans var kjörin Aðalheiður Dröfn. Hannes og Björk voru endurkosin. Í varastjórn voru kjörin Hulda Hlín Ragnars og Leifur Ingi Vilmundarson. Erlingur Hansson var endurkosinn endurskoðandi. Stjórnin hefur nú skipt með sér verkum og er Hannes áfram formaður og Björk gjaldkeri en Aðalheiður Dröfn er ritari félagsins.

Önnur mál
Hannes sagði frá því að verið væri að setja upp heimasíðu fyrir félagið og verður slóðin fljótlega send til félagsmanna sem þá geta fylgst með vinnunni

Björk sagði að gjaldkeri myndi í framtíð láta tölvubókhald duga án þess skrifa lengur sjóðbók.

Leifur bar upp stuðningstillögu við stjórn félagsins í baráttu hennar við ráðuneytið um styrki. Tillagan var samþykkt.

Ráðstefna  „Kröfur HÍ til félagsfræðinemenda ... og svo Færeyjar“

Að loknum aðalfundi var haldin ráðstefna með ofangreindu nafni. Á ráðstefnunni voru rædd tvö málefni:

Kröfur HÍ til félagsfræðinemenda
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Helgi Gunnlaugsson ræddu um kröfur til nýnema til að stunda nám í félagsfræði við HÍ. Þau lögðu áherslu á að nemendur sem hæfu nám við deildina byggju að skapandi hugsun og hefðu hlotið  undirstöðuþjálfun í fræðilegum vinnubrögðum.  Þau lögðu einnig áherslu á að nám í félagsfræði í framhaldsskóla gerðu þá hæfari til að stunda nám við deildina. Jafnframt höfðu þau áhyggjur af því að ýmislegt nám væri stundað í framhaldsskólum undir heitinu félagsfræði, svo sem almenn samfélagsfræði, stjórnmálafræði og mannfræði. Þetta væri til þess fallið að skapa misskilning um eðli félagsfræðinnar sem fræðigreinar.

Þjóðlíf í Færeyjum
Jón Ingi Sigbjörnsson var með glærusjóv og sagði frá Færeyjum og kynnti dagskrá væntanlegs endurmenntunarnámskeiðs 6.-10. júní 2011. Meðfylgjandi eru glærurnar sem Jón sýndi okkur
Í lok beggja dagskrárliða voru fjörugar almennar umræður.

Endurmenntunarnámskeið: Frjálsir frændur?" Menning og stjórnskipan Færeyinga.

Félagið stendur að endurmenntunarnámskeiði í Færeyjum 6.-10. júní. Skráning stendur yfir en henni lýkur 1. apríl. Hún fer fram á vef endurmenntunar: http://www.endurmenntun.is/Namsframbod/Framhaldsskolakennarar/Sumarnamskeid

Heildarkostnaður er kr. 110.000 pr. mann, innifalið er flug, hótel, nokkrar ferðir innanlands, fyrirlestrar og umsjón. Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara styrkir félagsmenn um kr. 60.000. Sá styrkur er greiddur beint inná reikning Félags félagsfræðikennara. Þátttakendur þurfa því að greiða kr. 50.000. Athugið að hver og einn getur sótt um styrk til KÍ þ.e. í vísindasjóð Félags framhaldsskólakennara B-deild. Upplýsingar um úthlutunarreglur B-deildar eru á síðunni.
Umsóknareyðublað er undir þessari slóð.
Einnig er hægt að sækja um rafrænt á vef KÍ – sjá leiðbeiningar
Umsóknarfrestir vegna B deildar eru 15. janúar, 15. mars, 15. maí, 15. september og 15. nóvember og eru styrkirnir greiddir út eins fljótt og kostur er. Reikningar mega ekki vera eldri en 12 mánaða gamlir, og er miðað við almanksár.  Heiti námskeiðsins er: „Frjálsir frændur? Menning og stjórnskipan Færeyinga“ og heildarkostnaður vegna námskeiðs er 110.000 krónur. Aðrir styrkir eru frá Samstarfsnefnd um endurmenntun að fjárhæð kr. 60.000.

Greiða skal kr. 50.000 inná reikning Félags félagsfræðikennara: 0513-26-406628, kt. 701182-0229.  Fyrsta greiðsla kr. 25.000 þarf að berast fyrir 15. apríl 2011 og seinni hlutinn eða kr. 25.000 fyrir 15. maí 2011. Setjið í skýringar: Færeyjar og nafn þátttakanda. Vinsamlegast sendið Björk afrit af innleggi á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
          
Spurningum um námskeiðið svara umsjónarmenn, Björk This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða Hannes This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Bestu kveðjur
Hannes, Björk, Aðalheiður

mánudagur, 21. febrúar 2011 - 13:00

Aðalfundur Félags félagsfræðinga

Aðalfundur Félags félagsfræðinga í framhaldsskólum verður haldinn 25. febrúar kl. 16:30-17:30 í Sægreifanum, Geirsgötu 8, Reykjavík.

Fundarstjóri: Garðar Gíslason

Dagskrá:

1.  Skýrsla stjórnar
2.  Ársreikningar
3.  Stjórnarkjör
4.  Önnur mál

Í beinu framhaldi aðalfundarins heldur félagið ráðstefnu undir yfirskriftinni „Kröfur HÍ til félagsfræðinemenda ... og svo Færeyjar“

Dagskrá:

1. Kröfur HÍ til félagsfræðinemenda, dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, með aðstoð og dr. Helga Gunnlaugssonar, leiðir umræður um kröfur til nýnema til að stunda nám við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.
2. Þjóðlíf í Færeyjum. Jón Ingi Sigbjörnsson segir frá Færeyjum og kynnir dagskrá væntanlegs endurmenntunarnámskeiðs í Færeyjum 6.-10. júní 2011.

Undir liðnum „Þjóðlíf í Færeyjum“ verður boðið upp á léttar veitingar og í lok dagskrárinnar verður boðið upp á léttan kvöldverð. Þar á eftir taka við önnur mál. Prótókollstjóri (með umsjón um huggulegheit) verður Björk Þorgeirsdóttir.

Stjórnin hvetur þig til að taka þátttöku á aðalfundi og til að mæta á ráðstefnuna og njóta veitinga.

Kær kveðja
Hannes, Björk, Garðar

Felfel á ferðalagi

Þriðjudagur, 8. febrúar 2011 - 12:00

Félagi góður!

Loksins hefur stjórn félagsins fundið sér tíma til að halda aðalfund sem með réttu hefði átt að halda fyrir jólin. Aðalfundur með dagskránni skýrsla stjórnar, endurskoðaðir reikningar lagðir fram, kosning stjórnar og önnur mál verður haldinn föstudaginn 25. febrúar. Samhliða aðalfundinum höldum við ráðstefnu undir yfirskriftinni Kröfur HÍ til félagsfræðinemenda ... og svo Færeyjar. Staðsetning fundarins og nánari tímasetning verður tilkynnt á næstu dögum.

Færeyjahluti ráðstefnunnar stafar af því að við erum að fara á þangað á sumarnámskeið. Áður var sagt að þetta námskeið yrði haldið 30. maí – 3. júni en þar sem Færeyingar eru með uppstigningardag 2. júní þá urðum við að fresta námskeiðinu og verður það því 7. -11. júní. Við höfum fengið styrk frá Endurmenntun sem samsvarar 60.000 kr. á hvern þátttakanda. Það er 50% hækkun frá því við fórum til Eistlands. Einnig styrkir Menntaráð Færeyja ferð okkar. Athugaðu að þú getur einnig sótt um styrk til KÍ þ.e. í vísindasjóð Félags framhaldsskólakennara B-deild. Peningamálin eiga því að vera í nokkuð góðu lagi. Í meðfylgjandi wordskrá má sjá drög að dagskránni í Færeyjum.

Erindið nú er sem sagt að minna þig á að taka frá dagana 25. febrúar og 7.-11. júní. Nánari upplýsingar um aðalfundinn eru brátt væntanlegar og þar fáum við að vita allt um Færeyjarferðina, auk þess sem við fáum að vita meira um hana hér þegar mál hafa skýrst betur.

Með bestu kveðju frá stjórn félagsins
Hannes, Björk, Garðar.