Föstudagur, 10. nóvember 2017 - 15:30

Vinnustofa um mannréttindakennslu og flóttafólk

Félag félagsfræðikennara í framhaldsskólum hefur í samvinnu við Íslandsdeild Amnesty International skipulagt vinnustofu fyrir kennara.

Staður: Kvennaskólinn í Reykjavík, Miðbæjarskólinn 
Dagskráin er eftirfarandi: 
Kennslufræðileg sýn Amnesty 
Mannréttindakennsla 
Herferðir Amnesty og málefni flóttafólks 

Vala Ósk Bergsveinsdóttir fræðslustjóri Amnesty á Íslandi kynnir kennsluefni um mannréttindi og flóttafólkl. Á vinnustofunni fáum við tækifæri til að spyrja og ræða ákveðin málefni tengd flóttamannamálum en ekki hvað síst að prófa kennsluefni sem Amnesty hefur uppá að bjóða. 

Við biðjum alla um að koma með far- eða spjaldtölvu með sér á vinnustofuna svo við getum öll prófað kennsluefnið. Eftir vinnustofuna verður léttur kvöldverður í boði félagsins. 

Athugið að hægt er að fá ferðakostnað innanlands greiddan. Um er að ræða ákveðnar hámarksupphæðir á mann, sjá upplýsingar neðst á þessari síðu hér: https://www.rannis.is/sjodir/menntun/sef/styrkir-vegna-sumarnamskeida/. Björk gjaldkeri félagsins sér um að greiðslur til þátttakenda, netfangið er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Fimmtudagur, 18. maí 2017 - 12:15

Skýrsla stjórnar 2015-2017

Skýrsla stjórnar Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum tímabilið 8. maí 2015 – 28. apríl 2017

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 8. maí 2015 á Sægreifanum. Björk fór yfir ársreikninga og voru þeir samþykktir. Hannes kynnti skýslu stjórnar. 

Í stjórn félagsins voru endurkjörin Hannes Í Ólafsson FÁ, Björk Þorgeirsdóttir, Kvennó og Guðmundur Gíslason FG. Hulda Ragnarsdóttir FB var kjörin í varastjórn. Erlingur Hansson var endurkjörinn endurskoðandi félagsins. 

Undir liðnum önnur mál var rætt um tilhögun sumarnámskeiða og sérstaklega þá væntanlega komu Dr. Hafez til landsins, að setja meira efni á heimasíðu félagsins, að endurskoða þyrfti póstlista og frammistöðu framhaldsskóla samkvæmt könnun um Stofnun ársins 

Fyrsti fundur stjórnar var haldinn 25. sept. Stjórnin skipti með sér verkum: Hannes Í Ólafsson formaður, Björk Þorgeirsdóttir gjaldkeri og Guðmundur ritari. 

Á tímabili núverandi stjórnar hafa verið haldnir ellefu skráðir stjórnarfundir og nokkrir óskráðir. Tímabilið nú einkenndist að nokkru af því að í upphafi þess var tekið upp nýtt vinnumat í skólum og kennarar höfðu í nógu að snúast á sínum vinnustað.

Helstu verkefni stjórnarinnar voru: 

Sumarendurmenntunarnámskeið 13.-14. ágúst 2015: Mannréttindi, minnihlutahópar og forréttindastöður. Fyrri daginn hélt Dr. Kai Hafez prófessor við Erfurt háskólann í Þýskalandi erindi og vinnustofu um Isalmophobiu og síðari daginn fjölluðu Auður Magndís Auðardóttir og Súsanna Margrét Gestsdóttir um mannréttindi. 37 kennarar voru skráðir á námskeiðið.

Námskeið á Sólon 5. mars 2016 um samtal kennara og nemenda. Umsjón með námskeiðinu hafði Bjarni Snæbjörnsson leiklistarkennari við FG.

Sumarendurmenntunarnámskeið 11. og 12. ágúst 2016: Fjötrar upplýsingasamfélagsins og námsmat.  Fyrri daginn fengum við fjóra fyrirlesara sem fjölluðu um ólíkar hliðar upplýsingasamfélagsins og síðari daginn sögðu átta félagar frá fjölbreyttu námsmati sem þeir nota. 30 kennarar voru skráðir á námskeiðið.

Ráðstefnan sem haldin var í dag 28. apríl 2017 en þar var fjallaði Tinna Þórudóttir Þorvaldar um stjórnmál og menningu á Kúbu og Hjördís Þorgeirsdóttir um virkni og ábyrgð nemenda í námi sínu.

Loks ber að nefna að stjórnin ber ábyrgð á skipulagningu þessa aðalfundar.

Mestur tími stjórnar fer í að undirbúa ráðstefnur og endurmenntunarnámskeið. Stjórn félagsins er nú í samstarfi við Amnesty International um að Amnesty efni til námskeiðs fyrir okkur næsta haust um mannréttindi og flóttamenn. Allmikill tími fer svo í að semja umsóknir um styrki. Á síðustu árum hafa fagfélög framhaldsskólakennara fengið árlega 150.000 kr. styrk frá menntamálaráðuneytinu. Þessi styrkur var aflagður á þessu ári og fær félagið því ekki fé til að halda uppi venjubundnu starfi. Félagið þarf fyrr eða síðar væntanlega að bregðast við fjárskorti.

Félagið fær þó styrki frá Rannís í gegnum SEF (Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara). Styrkirnir frá Rannís eru notaðir í ráðstefnuhald og endurmenntunarnámskeið. Framangreind námskeið og ráðstefnur voru þannig allar styrktar af Rannís. Einnig fengu ritari og gjaldkeri styrk til að fara á ráðstefnur Euroclio í Belfast og í San Sebastian árin 2016 og 2017. 

Stjórn félagsins hefur nú sótt um og fengið aðild að Euroclio með þeim fyrirvara að aðalfundur okkar nú samþykki það. Tillaga um aðildina að Euroclio verður lögð fram undir liðnum önnur mál.

Fyrir utan starf stjórnar við félagsfundi, ráðstefnur og námskeið þá hefur hún rætt um nýja vinnumatið og áhrif þess á stöðu félagsgreina og unnið að viðhaldi heimasíðu félagsins. Formaður félagsins sækir árlega samstarfsfundi SEF og fulltrúi stjórnar sækir árlega fund með skólamálanefnd Félags framhaldsskólakennara.

Starfið í félaginu er ekki aðeins á herðum stjórnarinnar. María Hjálmtýsdóttir hefur átt stærstan þátt í samskiptum okkar við Kúbumenn um endurmenntunarnámskeiðið þar í júní. Aðrir félagar hafa síðan komið að undirbúningi ráðstefna og endurmenntunarnámskeiða.
 

Reykjavík, 28. apríl 2017

Hannes Í Ólafsson 

40 ára afmæliskaka felfel

sunnudagur, 30. apríl 2017 - 20:15

Ráðstefna og aðalfundur félagsins föstudaginn 28. apríl 2017

Félagsmaður góður
 
Minnt er á ráðstefnu og aðalfund Félags félagsfræðikennara nú á föstudaginn 28. apríl kl. 16:30.
Ráðstefnan fer fram í kennslustofu M-201 í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.
 
Aðalfundurinn verður svo haldinn í beinu framhaldi ráðstefnunnar á kennarastofu skólans.
Á ráðstefnunni verða haldin tvö aðalerindi:
 
Tinna Þórudóttir Þorvaldar: Kúba: Mannlíf, menning og stjórnmál
Hjördís Þorgeirsdóttir: Breytingastofan: Aukin virkni og ábyrgð nemenda í námi sínu
 
Í framhaldi ráðstefnunnar höldum við aðalfund:
1.  Ársreikningar 
2.  Skýrsla stjórnar
3.  Stjórnarkjör
4.  Önnur mál
    (Meðal annarra mála: Innganga félagsins í Euroclio, samtök kennara í sögu, menningu og borgaravitund og dagskrá endurmenntarnámskeiðsins á Kúbu).
 
Á ráðstefnunni verður boðið upp á kaffi og afmælistertu enda verður félagið 40 ára nú í ár.
Á aðalfundi verður boðið upp á léttan kvöldverð, drykki og spjall um skólamál.
 
Kær kveðja
Stjórn félagsins

Fimmtudagur, 20. apríl 2017 - 19:30

Ráðstefna og aðalfundur

Félagsmaður góður

 Boðað er til ráðstefnu og aðalfundar Félags félagsfræðikennara föstudaginn 28. apríl kl. 16:30.
 
Ráðstefnan er haldin vegna 40 ára afmælis félagsins nú í ár. Haldin verða tvö aðalerindi:
 
Tinna Þórudóttir Þorvaldar: Kúba: Mannlíf, menning og stjórnmál
Hjördís Þorgeirsdóttir: Breytingastofan: Aukin virkni og ábyrgð nemenda í námi sínu
 
 Í framhaldi ráðstefnunnar höldum við aðalfund:
 
1.  Ársreikningar 
2.  Skýrsla stjórnar
3.  Stjórnarkjör
4.  Önnur mál
    (Meðal annarra mála: Innganga félagsins í Euroclio, samtök kennara í sögu, menningu og borgaravitund.
 Á fundinum verður boðið upp á léttan kvöldverð, drykki og spjall um skólamál.
 Upplýsingar um staðsetningu fundarins eru boðaðar í upphafi vikunnar.
 Kær kveðja
Stjórn félagsins

mánudagur, 10. apríl 2017 - 15:00

Kúba 2017 - gagnlegar upplýsingar

Mikilvægar og gagnlegar upplýsingar fyrir sumarnámskeiðið á Kúbu sjáið þið hér: http://felfel.is/node/363. Komnar upplýsingar um þátttakendur, staðfesta dagskráliði, gögn sem gott (og gaman) er að kynna sér fyrir ferðina. Gagnlegar upplýsingar um það gott er að taka með sér, skilaboð frá Vita-ferðum varðandi greiðslufyrirkomulag og vegabréfsáritanir. Einnig upplýsingar um styrkumsóknir til Vísindasjóðs FF og FS. 
Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband við umsjónarmann námskeiðsins, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.