Laugardagur, 5. júlí 2014 - 14:15
Félagsfræðikennarar fá verðlaun fyrir framúrskarandi störf
Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Guðmundur Stefán Gíslason, Hörður Ríkharðsson, Björk Þorgeirsdóttir, Steinunn Marta Jónsdóttur, sem tók við verðlaunum Önnu Steinunnar Valdimarsdóttur og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Í maímánuði stóð Háskóli Íslands fyrir kynningarátaki til að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastafinu og áhrifum kennara á einstaklinga og samfélag. Í átakinu gafst almenningi kostur á að senda inn tilnefningu um þann kennara sem mest áhrif hafði haft á hvern og einn. Nærri tvö þúsund manns tóku þátt í að tilnefna en í framhaldi þess skoðaði valnefnd tilnefningarnar og umsagnir og valdi fimm kennara til verðlauna. Þann 3. júlí veitti svo Menntavísindasvið Háskóla Íslands fimm kennurum verðlaun fyrir framúrskarandi störf. Tveir kennaranna koma úr framhaldsskólum og eru okkur að góðu kunnir enda báðir félagsmenn okkar. Vonandi sýnir þetta okkur áhrif félagsfræðikennslu á nemendur okkar. Félagið er stolt af viðurkenningu sem þessir kennarar hafa nú fengið og óska Björk Þorgeirsdóttur og Guðmundi Stefáni Gíslasyni innilega til hamingju með verðlaunin.
Á vefsíðu Kennarasambands Íslands er verðlaunaúthlutunin tilkynnt (http://ki.is/um-ki/utgafa/fréttir/1689-fimm-kennarar-verðlaunaðir-fyrir-framúrskarandi-störf )
Fimm kennarar verðlaunaðir fyrir framúrskarandi störf
04. Júlí 2014
Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitti í gær fimm grunn- og framhaldsskólakennurum verðlaun fyrir framúrskarandi störf. Verðlaunin eru afrakstur kynningarátaksins Hafðu áhrif sem Háskóli Íslands stóð fyrir í maí síðastliðnum.
Á heimasíðu átaksins Hafðu áhrif sögðu þjóðþekktir Íslendingar frá þeim kennara sem mest áhrif hafði haft á líf viðkomandi í stuttum myndböndum. Þá gafst almenningi kostur á að tilnefna þann kennara sem hafði haft mest áhrif á hvern og einn. Um tvö þúsund manns tóku þátt og hlutu á fimmta hundrað kennarar tilnefningu. Valnefnd fór yfir tilnefningarnar og umsagnir og í kjölfarið voru fimm kennarar valdir úr hópnum.
Kennararnir sem fengu verðlaun fyrir framúrskarandi störf eru:
Anna Steinunn Valdimarsdóttir, Laugalækjarskóla
Björk Þorgeirsdóttir, Kvennaskólanum í Reykjavík
Guðmundur Stefán Gíslason, Fjölbrautarskólanum í Garðabæ
Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Keili
Hörður Ríkharðsson, Blönduskóla