Þriðjudagur, 8. febrúar 2011 - 12:00

Félagi góður!

Loksins hefur stjórn félagsins fundið sér tíma til að halda aðalfund sem með réttu hefði átt að halda fyrir jólin. Aðalfundur með dagskránni skýrsla stjórnar, endurskoðaðir reikningar lagðir fram, kosning stjórnar og önnur mál verður haldinn föstudaginn 25. febrúar. Samhliða aðalfundinum höldum við ráðstefnu undir yfirskriftinni Kröfur HÍ til félagsfræðinemenda ... og svo Færeyjar. Staðsetning fundarins og nánari tímasetning verður tilkynnt á næstu dögum.

Færeyjahluti ráðstefnunnar stafar af því að við erum að fara á þangað á sumarnámskeið. Áður var sagt að þetta námskeið yrði haldið 30. maí – 3. júni en þar sem Færeyingar eru með uppstigningardag 2. júní þá urðum við að fresta námskeiðinu og verður það því 7. -11. júní. Við höfum fengið styrk frá Endurmenntun sem samsvarar 60.000 kr. á hvern þátttakanda. Það er 50% hækkun frá því við fórum til Eistlands. Einnig styrkir Menntaráð Færeyja ferð okkar. Athugaðu að þú getur einnig sótt um styrk til KÍ þ.e. í vísindasjóð Félags framhaldsskólakennara B-deild. Peningamálin eiga því að vera í nokkuð góðu lagi. Í meðfylgjandi wordskrá má sjá drög að dagskránni í Færeyjum.

Erindið nú er sem sagt að minna þig á að taka frá dagana 25. febrúar og 7.-11. júní. Nánari upplýsingar um aðalfundinn eru brátt væntanlegar og þar fáum við að vita allt um Færeyjarferðina, auk þess sem við fáum að vita meira um hana hér þegar mál hafa skýrst betur.

Með bestu kveðju frá stjórn félagsins
Hannes, Björk, Garðar.