Miðvikudagur, 30. september 2020 - 23:15

Málþing FFF, 30.október 2020

Félag félagsfræðikennara í framhaldsskólum (FFF) boðar til málþings þann 30.október, sem ber yfirskriftina Lýðræði meðal framhaldsskólanema: Frá fræðslu að framkvæmd.
Málþingið hefst á erindi Valgerðar S. Bjarnadóttur, nýdoktors við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri, en doktorsritgerð hennar fjallaði m.a. um „.tækifæri framhaldsskólanema til að hafa áhrif á nám sitt“. Hún mun í erindi sínu fjalla um kennsluhætti sem gætu talist styðja við lýðræðislegt samfélag í kennslustofunni, en finna má grein frá henni um efnið í tímaritinu Skólaþræðir.
Að því loknu mun SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema) vera með erindi er varðar Lýðræðishandbók sem þau hafa fengið styrk fyrir til að vinna með BA nemum úr stjórnmálafræði í HÍ, en félag okkar hefur samþykkt að taka þátt í samstarfi með þeim. Að lokum hefst samtal þar sem félagar okkar geta veitt hvort öðru reynslusögur af starfi sínu sem viðkemur lýðræðislegum starfsháttum í kennslustofunni.
Í því skyni óskum við eftir framlögum frá félagsmönnum og auglýsum hér með eftir innleggi frá ykkur (sendið okkur skilaboð á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Ef vel safnast gæti jafnvel orðið um reglubundinn viðburð að ræða, akademíska korterið (nafngift í vinnslu) þar sem fundað verður reglulega stutt í senn og hlýtt á áhugaverða þætti úr starfi hvors annars. Nánari tíma- og staðsetning verður auglýst síðar, en við vonumst til að sjá sem flesta. Nánari dagskrá, staðsetning og tími auglýst síðar. Takið 30. október frá! Kveðja, stjórnin.

Laugardagur, 29. febrúar 2020 - 15:15

Belfast ferðalangar - staðfestingargjald

Jæja góðir ferðalangar!
 
Þá er komið að því að greiða staðfestingargjald inn á námsferðina okkar til Belfast. Hér er linkur sem þið smellið á og gangið frá greiðslu.
 
Ganga þarf frá greiðslunni í síðasta lagi 9. mars 2020. Staðfestingargjaldið er kr. 15.000

Hópanúmerið er: 1149
Greiða staðfestingargjald. https://packages.icelandair.is/fi_is/groupPackage.do%20
Velja í brottför  dagsetninguna 6. júní 2020
Ekki gleyma að haka við setninguna: "Greiða staðfestingargjald 15.000 ISK" á síðu 4 í ferlinu.

Ekki er hægt að greiða staðfestingargjaldið með gjafabréfum eða Vildarpunktum.
Það er hins vegar hægt að gera þegar greiða skal eftirstöðvar.
Lokagreiðsla fyrir 28.apríl

Vinsamlega athugið að staðfestingargjald er óendurkræft.
 
Upplýsingar um ferð og hótel:
Belfast
út laugardag 6.6.2020 - heim fimmtudag 11.6.2020
 
Kr 128.000.- á mann í tvíbýli
Kr 181.200.- á mann í einbýli
Innifalið: Flug til/frá Dublin, flugvallaskattar, 1 innrituð taska allt að 23kg, 1 taska í handfarangri allt að 10kg, rútuferð til/frá flugvelli í Dublin og á hótel í Belfast, gisting í 5 nætur m/morgunverði og þjónustugjald.
Flugtímar:
FI416 06JUN KEF DUB 0730-1055
FI417 11JUN DUB KEF 1215-1400
Hótel:
Clayton Hotel Belfast
https://www.claytonhotelbelfast.com/?utm_source=google&utm_medium=organic&utm_campaign=gmb-hotel-homepage
 
Ég sendi síðan fljótlega lista yfir þátttakendur og herbergjaskipan.
 
Kærar kveðjur
Rósa
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Miðvikudagur, 5. febrúar 2020 - 19:30

Ráðstefna Euroclio 2020

Vekjum athygli á því að 27. árlega ráðstefna Euroclio verður haldin þann 31.mars til 4.apríl, sem við í FFF erum aðilar að. Þetta árið verður ráðstefnan undir yfirskriftinni "Controversy and Disagreement in the Classroom, nokkuð sem rímar prýðilega við sumarnámskeið okkar í Belfast í sumar.
Hvetjum alla til að grípa tækifærið og sækja ráðstefnuna sem verður haldin í Belgrad í Serbíu, en nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Euroclio.
Kveðja, stjórnin.

Miðvikudagur, 5. febrúar 2020 - 19:00

Námsferð til Belfast

Ágæti félagsmaður!
 
Nú líður að námsferðinni okkar í sumar.
Ferðinni er heitið til Belfast á Norður Írlandi, fimm nætur, brottför er 5. júní 2020 og heimkoma 10. júní 2020.
Verð er um kr. 130.000 fyrir flug, rútu og hótel í tvíbýli, um 180.000 í einbýli. KÍ styrkhæft.
Þema ferðarinnar er Lýðræði, mannréttindi og áskoranir klofins samfélags og hvernig tekist er á við umrót og átök i gegnum námskerfið. Hvernig og hvort þessir þættir kallast á í skólastofunni.
Nánari útfærsla og dagskrá er í vinnslu og verður tilkynnt eftir því sem línur skýrast.
Þar sem að við erum að semja við ferðaskrifstofur þurfum við að vita hverjir eru staðráðnir í að taka þátt og einnig hverjir eru líklegir. Það komast hámark 30 manns með.
Láttu mig vita - gott að vera búin að fá viðbrögð fyrir fyrir mánudaginn 10. febrúar 2020 :)
 
Kærar kveðjur
G. Rósa Eyvindardóttir

sunnudagur, 2. júní 2019 - 22:00

Skýrsla stjórnar 2017 - 2019

Hér má sjá skýrslu stjórnar sem formaður félagsins flutti á aðalfundinum þann 17. maí 2019

Góðir félagar.
 
Í upphafi þessa fundar þætti mér vænt um að við minntumst fallins félaga.
 
Jónína Helga Þórólfsdóttir fæddist í Reykjavík 8. janúar 1971 og lést þar 29. janúar á þessu ári aðeins 48 ára gömul.
 
Ég var svo heppinn að fá að starfa með Jónínu en hún var í æfingakennslu hjá mér skólaárið 2009-2010.  Hún var metnaðarfullur kennari, gagnrýnin á eigin kennslu og náði góðu sambandi við nemendur.
 
Hún sótti sumarnámskeiðið hjá okkur síðast á síðasta ári og nokkur ykkar þekktuð hana vegna kennslu hennar en eftir kennsluréttindin hóf Jónína kennslu við Menntaskólann á Akureyri og frá haustinu 2012 kenndi hún við Menntaskólann við Sund. Við stöndum upp og minnumst Jónínu með einnar mínútu þögn.
 
Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 28. maí 2017 í FÁ. Björk lagði fram  ársreikninga og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum. Hannes las upp skýrslu stjórnar.
 
Í stjórn félagsins voru endurkjörin Hannes Í Ólafsson FÁ, Björk Þorgeirsdóttir, Kvennó og Guðmundur Gíslason FG.
 
Þórunn Steindórsdóttir og María Ben Ólafsdóttir voru kjörnar í varastjórn.
 
Undir liðnum önnur mál var endanlega samþykkt að félagið gerðist aðili að Euroclio, samtökum evrópskra sögu- og félagsgreinafélaga og rætt var um stöðu fagfélaga KÍ eftir að ríkið tók styrki af þeim.
 
Fyrir aðalfundinn var ráðstefna þar sem sagt var frá væntanlegu sumarnámskeiði á Kúbu. Auk þess fjallaði Tinna Þórudóttir Þorvaldar um menningu og stjórnmál á Kúbu og Hjördís Þorgeirsdóttir fjallaði um virkni og ábyrgð nemenda í námi sínu
 
Fyrsti fundur stjórnar var haldinn 17. maí. Stjórnin skipti með sér verkum: Hannes formaður, Björk gjaldkeri og Guðmundur ritari.
 
Á tímabili núverandi stjórnar hafa verið haldnir sjö skráðir stjórnarfundir og nokkrir óskráðir.
 
Helstu verkefni stjórnarinnar voru:
 
Skipulagning ráðstefna og námskeiða:
Skipulagning sumarnámskeiðs á Kúbu 2.-9. júní 2017. Þátttakendur voru 23. María Hjálmtýsdóttir vann með stjórn félagsins að skiplagningu og framkvæmd námskeiðsins.
Vinnustofa um mannréttindakennslu og flóttamenn, Kvennaskólanum 10. nóv 2017. Vala Ósk Bergsveinsdóttir fræðslustjóri Amnesty á Íslandi kynnti kennsluefni um mannréttindi og flóttafólk.
Skipulagning sumarnámskeiðs 13.-14. ágúst 2018. Hnattvæðing og margbreytileiki, námsgögn í félagsgreinakennslu og afbrot í íslensku samfélagi. Fyrir utan fjóra fyrirlesara utan félagsins þá unnu þátttakendur í vinnustofum við að setja kennsluefni á heimasíðu félagsins.

Skipulagning ráðstefnu með Félagi félagsfræðinga 30. nóvember 2018. Björk Þorgeirsdóttir mætti fyrir hönd okkar félags með nemendur úr Kvennó en öll sögðu þau frá reynslu sinni af félagsfræðikennslu í framhaldsskóla.

Skipulagning ráðstefnu um stéttamun í íslenskum skólum en ráðstefnan var haldin nú á undan aðalfundi 17. maí. Aðalfyrirlesari var Berglind Rós Magnúsdóttir.

Skipulagning þessa aðalfundar í dag 17. maí.

Skipulagning sumarnámskeiðs sem haldið verður 12. og 13. ágúst 2019. Fjallað verður um Faglegar og tæknilegar nýjungar í kennslu félagsgreina

Stjórn félagsins hefur auk þessa fengist við að sækja um styrki frá Rannís vegna ferða sem ætlaðar eru fyrir stjórnarmenn til að sækja ráðstefnur erlendis. Þannig fóru formaður félagsins og heiðursformaður þess á ráðstefnu Euroclio í Marseille 2018 og formaður og varamaður í stjórn fóru til Gdansk á þessu ári, 2018.

Unnið hefur verið við að setja efni á heimasíðu félagsins og að uppfæra félagatal. Sú vinna hefur að mestu legið á gjaldkera félagsins, henni Björk.

Fyrir utan starf stjórnar við félagsfundi, ráðstefnur og námskeið þá hefur hún rætt um stöðu kennslu í félagsfræði og stjórnarmenn hafa árlega sótt fund með skólamálanefnd Félags framhaldsskólakennara. Þannig fór Hannes á slíkan fund árið 2017, Björk árið 2018 og Guðmundur er nýkominn frá slíkum fundi fyrir árið 2019. Formaður félagsins sækir svo árlega fræðslufund Samstarfsnefndar um endurmenntun framhaldsskólakennara.
Starfið í félaginu er ekki aðeins á herðum stjórnarinnar. Aðrir félagar hafa komið að undirbúningi ráðstefna og endurmenntunarnámskeiða.

Helstu verkefni sem bíða komandi stjórnar snúa að fjármálum. Fram til ársins 2016 fengu fagfélög framhaldsskólakennara árlega styrk frá menntamálaráðuneytinu. Eftir að þessi styrkur var aflagður þarf félagið að huga að því hvernig afla skuli peninga til starfseminnar. Þar erum við með kostnað vegna fundarhalda en þó mest vegna glæsilegrar heimasíðu okkar.

Nú er svo komið að allir stjórnarmenn hætta störfum fyrir félagið.

Guðmundur Gíslason tók við starfi ritara félagsins í september árið 2014 þegar þáverandi ritari hætti í stjórninni. Hann hefur starfað meira en tvö  kjörtímabil í stjórninni.
 
Björk Þorgeirsdóttir var fyrst kosin í stjórn árið 2002 og starfaði þá sem ritari en tók að sér starf gjaldkera á næsta aðalfundi árið 2003. Hún hefur þannig starfað 17 ár í stjórninni og flest árin í erfiðu gjaldkerastarfi. Frá upphafi hafa aðeins tveir stjórnarmenn starfað lengur fyrir félagið.
 
Hannes Ísberg Ólafsson var fyrst kosinn í stjórn félagsins árið 1994 og hefur starfað sem meðstjórnandi, ritari og svo formaður félagsins frá árinu 2005. Hann hefur því starfað í stjórn félagsins í 25 ár eða lengur en nokkur annar. Hann hefur verið formaður félagsins í 14 ár en aðeins heiðursformaðurinn, Garðar Gíslason, hefur starfað lengur eða í 15 ár.
 
Fyrir utan stjórn félagsins þá hættir einnig Erlingur Hansson sem endurskoðandi félagsins. Hann hefur verið endurskoðandi lengur en elstu heimildir ná til.
 
Mér þykir rétt að við gefum endurskoðanda og fráfarandi stjórn gott klapp fyrir þeirra starf.
 
Reykjavík, 17. maí 2019
Hannes Í Ólafsson