2021 - Áskoranir í framtíðar samfélagi og breyttu náms- og starfsumhverfi framhaldsskólakennarans

Sumarnámskeið FFF 4-5.júní
Dagskrá námskeiðsins þetta árið var sannarlega pökkuð, svo pökkuð reyndar að hluti hennar var færð yfir í byrjun september. Þá mun Huginn Þorsteinsson doktor í vísindaheimspeki fjalla um 4.iðnbyltinguna og framtíðaráskoranir í námi. Því mun Kristján Páll Kolka Leifsson kennari í FÁ svo fylgja eftir með því að leiða umræður um lýðræðislega kennslu í skólastofunni.
 
Föstudagurinn 4.júní
Námskeiðið hófst á föstudeginum með einum kaffibolla í fyrirlestrarsalnum Fróða í KÍ á meðan verið var að raða borðum og koma fyrir fjarfundabúnaði. Því miður voru netið, snúrur og annað að stríða okkur sem olli því að spurningar bárust illa úr salnum yfir til fjarfundagesta, en að öðru leyti tókst þetta vel.
Fyrsti fyrirlestur var frá þríeykinu Laufeyju Leifsdóttur, Tuma Kolbeinssyni og Þórði Kristinssyni. Þau komu öll fram með fjarfundabúnaði. Laufey lýsti hvernig fyrirkomulag rafbóka gengur hjá Forlaginu. Tumi kynnti bók sína Félagsfræði – Ég, við og hin, en sú bók er ætluð til kennslu í grunnáfanga félagsfræðinnar. Þórður kynnti svo tvær bækur á sínum vegum, annars vegar Mannfræði fyrir byrjendur sem hann skrifaði með Gunnari Þór Jóhannessyni og svo Kynjafræði fyrir byrjendur sem hann skrifaði með Björk Þorgeirsdóttur. Að kynningum loknum voru spurningar sem gekk misvel að ráða úr sökum nettruflunar. Upptakan af kynningu þeirra er hins vegar aðgengileg undir „námsgögn“ hér hjá námskeiðinu.
Sökum tæknilegra vandkvæða og tafa sem þeim fylgdi gafst ekki rými fyrir hópefli Eyrúnar Bjargar Magnúsdóttur líkt og stóð til, en hún hélt það á laugardagskvöldinu þátttakendum til mikillar skemmtunar.
Hrönn Grímsdóttir kom svo næst fram (í gegnum fjarfundabúnað) en hún er náms- og starfsráðgjafi fyrir austan og starfar m.a. sem sérfræðingur hjá Austurbrú. Hrönn hélt fyrirlestur um kulnun og stress í vinnuumhverfinu, helstu einkenni kulnunar og hvernig má stjórna streitu til að forðast kulnunina.
Hjördís Þorgeirsdóttir kynnti næst eina af starfendarannsóknum sína en hún bar heitið Leiðsagnarnám og námskraftur nemenda. Þar fjallaði hún meðal annars um rannsóknarspíral starfendarannsókna og lykilaðgerðir leiðsagnarmats.
Síðast á svið á föstudeginum var svo Svandís Ólafsdóttir með fræðslu og hópvinnu um hvernig megi efla sjálfið. Þátttakendur á staðnum unnu þar með Svandísi í hugleiðslu, “fundu helli sinn” og má segja að hver í hópnum hafi lokið deginum í ró og nánd við sjálfan sig sem og hvert annað. Sannarlega velkominn endir á viðburðaríkum degi.
 
Laugardagurinn 5.júní
Morguninn hófst með kaffibolla og hafragraut fyrir þá sem vildu. Guðrún Ragnarsdóttir, lektor Menntavísindasviði HÍ og Súsanna Margrét Gestsdóttir, aðjúnkt á menntavísindasviði HÍ stýrðu kennslu fyrri hluta dagsins. Þær fjölluðu um þriggja ára rannsókn þeirra á líðan og starfsanda kennara og nemenda á Covid tímanum. Gestir unnu svo hópverkefni í virkri hlustun sem eins konar hópefli. Guðrún og Margrét fjölluðu einnig um leiðir kennara til þess að þróa sig í starfi.
Hjördís hélt erindi um starfendarannsókn sína um hvernig efla megi starfsþróun kennara. Þar byggði hún á hugmyndum McNiff um faglega leiðsögn ytri ráðgjafa að starfsþróun kennara. Hún lýsti þar starfi sínu með kennurum MS og starfsþróun þeirra.
Bogi Ragnarsson kynnti þróunarverkefni sitt með rafræn kennslugögn þar sem hann hefur unnið með kennsluefni, verkefni og annað tengt kennslu í gagnabanka sem keyra er hægt í gegnum námsumsjónarkerfi, en gögnin hans er hægt að beita með Microsoft stýrikerfi, moodle o.fl.. Þessi hugmynd hans býður upp á fjölmarga valmöguleika þar sem kennarar geta þróað saman lesefni, verkefni og annað slíkt tengdu áföngum sínum í gegnum námsumsjónarkerfið.
Bjarni Snæbjörnsson, leikslistarkennari og leikari flutti erindi sitt: Að kenna af heilindum. Bjarni sagði frá MA verkefni sínu sem snerist m.a. um að gera starfendarannsókn. Hann fjallaði um verkefni sitt við að setja upp leiklistarbraut í FG sem tókst með miklum árangri og aðsókn nemenda. Einnig fór hann yfir lýðræðislega kennsluhætti í samstarfi sínu við nemendur við að skipuleggja leikritin. Kulnun og örmögnun var einnig umfjöllunarefni hans sem gestir könnuðust sjálfir við eftir áskoranir sem heimsfaraldurinn bar með sér.
Gunnvör Rósa Eyvindardóttir kynnti að lokum starfendarannsókn sína við að undirbúa nemendur að lýðræðislegri þátttöku í samfélaginu. Þar lýsti hún rökræðuverkefnum sínum í stjórnmálafræði þar sem nemendur þurfa að spreyta sig á ólíkum sjónarhornum.
Formleg dagskrá endaði svo með aðalfundi Félags félagsfræðikennara í framhaldsskólum. Á fundinum var farið yfir lögbundna dagskrárliðina, skýrsla félagsins kynnt, uppgjör reikninga félagsins útlistað og kosið í næstu stjórn. Júlía B. Björnsdóttir var kosin ný inn í stjórn og Helgi Hermannsson sem varamaður. Kristján Páll Kolka Leifsson steig niður sem ritari og tók við sem varamaður með Helga. Undir önnur mál var lagt til að endurskoða þyrfti lög félagsins um hvernig stjórn þess sé samsett. Núverandi fyrirkomulag byggði á takmörkunum í tíma og rúmi sem hreinlega hefðu ekki verið til staðar síðustu tuttugu ár og því tilvalið virkja betur lýðræðislega nálgun við stjórn félagsins. Þar sem samskiptamiðlum og tækni hafi fleygt svo mikið fram væri hreinlega úreld nálgun að setja einhverjum einum hlutverk formanns eða ritara. Eina hlutverkið sem hefði eitthvað raunverulegt gildi væri gjaldkerinn ef nokkuð væri enn. Var á fundinum stungið upp á að í stað 3 manna stjórnar sem skipti með sér verki formanns, ritara og gjaldkera yrði í lögum gert mögulegt að hafa 3-5 manna stjórn. Til þess að breyta lögunum þarf hins vegar að boða til nýs aðalfundar og því málið sett á ís þar til kemur að næsta aðalfundi.
Deginum lauk svo með kvöldmat þar sem Eþíópískur matur var snæddur frá veitingastað í nágrenninu og Eyrún stóð fyrir smávægilegu hópefli fyrir þá sem eftir voru. Verður ekki annað sagt en að námskeiðið hafi staðið fyrir fjölmörgum atriðum og fyrirlestrum og í heildina vel heppnað. Stjórnin þakkar öllum fyrirlesurum og þátttakendum fyrir frábæra helgi.