Gögn, tilvísanir og fleira
Kenningar og rannsóknir um táknræn samskipti
Tony Lawson
Tony Lawson byrjaði á því að setja fram spurninguna: Hvers vegna að fjalla um kenningar um táknræn samskipti? Hann taldi ástæðurnar m.a. vera þær að nauðsynlegt er að skilja eldri félagsfræðikenningar til að læra af reynslunni og kenningar um táknræn samskipti hafa þann kost að setja einstaklinginn í forgrunn en tengja hann einnig við félagsleg öfl. Umfjöllunin um samskipti í daglega lífinu gefur okkur ennfremur sérstakt tækifæri til að tengja efnið við raunveruleika nemendanna. Lawson lagði áherslu á að kennarar gerðu sér vel grein fyrir markmiðum námsins og að áherslan í félagsfræðikennslu í Bretlandi væri á að kenna hæfni frekar en þekkingu og athyglinni væri beint að þrenns konar hæfileikum þ.e. (1) þekkingu og skilningi, (2) túlkun og beitingu og (3) mati. Lawson rakti síðan þróun kenninga um táknræn samskipti og tengdi efnið jafnóðum við ýmis verkefni fyrir nemendur sem hann hafði meðferðis.
Hann byrjaði á því að fjalla um áhrif kenninga Max Weber á samskiptakenningar. Samkvæmt Weber verður að skoða formgerðarbreytingar á samfélaginu í ljósi áhrifa þeirra á einstaklinga og þeirra áhrifa sem einstaklingar hafa á þessar breytingar. Félagsfræði þarf að vera annað og meira en aðrar faggreinar því hún þarf bæði að beita útskýringum (erklaren) og skilningi (verstehen) þ.e beita bæði vísindalegu sjónarhorni og túlkun. Næst lýsti Lawson hugmyndum Georg Simmel einum af frumkvöðlum samskiptakenninga en postmodernistar hafa beint athyglinni að honum undanfarið. Simmel lagði áherslu á sjónarhorn einstaklingsins. Samfélagið er aðeins samtala samskipta milli einstaklinga en lifir ekki sjálfstæðu lífi. Það er ekki framleiðsla sem er mikilvæg (sbr. marxismi) heldur neysla. Það er neyslan sem skapar verðmæti hlutanna og það er löngunin í neyslu sem ítir undir skipti sem viðhalda þeim samskiptum sem þjóðfélagið byggist á.
Þá fjallaði Lawson um grunnhugmyndir samskiptakenninga. Hugtakið athöfn (action) er þar skilgreint mjög þröngt þ.e. athöfn er þegar við gerum eitthvað í ákveðnum tilgangi í tengslum við annað fólk. Við þurfum því að skilja hvers vegna einstaklingur hegðar sér á ákveðinn hátt. En við þurfum að skilja það út frá hans sjónarhorni sbr. W.I. Thomas: allar aðstæður sem við skilgreinum sem raunverulegar verða raunverulegar og hafa raunverulegar afleiðingar fyrir okkur. Síðan lýsti Lawson stuttlega hugmyndum the Chicago School um tákn og táknræn samskipti, Cooleys um spegilsjálfið, Meads um tvær hliðar sjálfsins “ég” og “mig” og Blumers um þýðingu tungumálsins í samskiptum. Einnig fjallaði Lawson um áherslu the Iowa School á það að samfélagið er meira en samsafn einstaklinga, að sjálfið er stöðugri eining heldur en Mead vildi meina og að rétt sé að nota vísindalega sjónarhornið og beita bæði megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum sbr. rannsókn Laud Humphreys “Tea Room Trade”.
Síðan lýsti Lawson hugmyndum Husserl sem falla undir fyrirbærafræði “phenomenology” þar sem áherslan er á að rannsaka það sem sést á yfirborðinu en ekki að kafa eftir dýpri merkingu hlutanna. Við eigum að nota “epoché” þ.e. að nálgast veröldina út frá því að við vitum ekkert um hana og aldrei séð hana áður. Þar næst fjallaði Lawson um þá hugmynd innan “ethnomethodology” að hver einstaklingur skilur allt á sinn sérstaka hátt en gagnrýndi það sjónarhorn á þeirri forsendu að það leiði til algjörrar afstæðishyggju. Ef enginn annar skilur fyrirlestur Lawson eins og hann meinar hann þá er enginn tilgangur með félagsfræði!
Að lokum ræddi Lawson um hvernig við getum kynnt postmodernisma fyrir nemendum okkar. Hann telur að við þurfum að kynna þær hugmyndir fyrir nemendum því þetta sé þeirra heimur þ.e. við lifum á tímum “postmodernity”.
[Samantekt H.Þ.]
Félagsfræði fjölmiðla
Þorbjörn Broddason
Þorbjörn ræddi fyrst um kenningar um áhrif fjölmiðla. Hann sagði að þótt mest séu skoðuð áhrif fjölmiðla á unglinga þá væri mikilvægt að skoða áhrif þeirra á samfélagsgerðina. Hann sagði frá sjónarmiðinu um að ný boðskipti hefðu ummótað samfélagið. Þáttaskilin við upphaf ritmáls á 5. - 4. öld f. Kr. ásamt þeim sem urðu með prenttækninni á 15. öld væru hjálpleg til að skilja þátt fjölmiðla í byltingakenndum breytingum nútímans. Allir hafi þurft að gera breytingar á lífi sínu og aðlaga það nýjum samskiptaháttum vegna áhrifa fjölmiðla. Þorbjörn vísaði til Innis og McLuhan sem helstu kennismiða um slíkar breytingar.
Í framhaldinu ræddi Þorbjörn um tengsl sjónvarps og samfélags. Greina mætti í þessu sambandi þrjú skeið: (1) Sjónvarpið og samfélagið 1950-1970, sjónvarpið hafi verið “utan við” samfélagið, t.d. hafi notkun þess verið svipuð því að fara í bíó. (2) Sjónvarpið í samfélaginu 1970-1985, sjónvarpið hafi verið virkur þátttakandi í daglegu lífi með t.d. fréttaflutningi eða öðru efni. (3) Sjónvarpssamfélagið frá 1985-nú, hlutirnir gerist að ýmsu leiti í gegnum sjónvarp eða hreinlega í því, fólk sé þátttakendur í atburðum með því að horfa t.d. á íþróttakeppnir eða brúðkaup kóngafólks.
Þorbjörn ræddi áhrif sjónvarps á viðhald og breytingar á menningu. Samanburður á þrenns konar tegundum sjónvarps leiði í ljós ólík áhrif á samfélagið: (1) Sjónvarp sem þungamiðja menningar. Efnið sé framleitt af eigin menningarheimi og sýni mynd af sams konar fólki og þjóðin sé, töluð sé sama tunga. Þetta styrki eigin menningu. Lönd: USA, Bretland, Kanada, Ástralía, Nýja Sjáland o.fl. (2) Sjónvarp sem hvati menningarlegrar óreiðu. Sjónvarp skili inn efni úr framandi menningu en ekki á beinan hátt. Mikið efni sé talsett og fólk heyri eigin tungu en sjái framandi heim. Lönd: Rússland, Þýskaland, Frakkland, Spánn, Ítalía o.fl. (3) Sjónvarpið sem hvati þekkingar á framandi menningu og tungu. Stöðvar hafi ekki efni á að talsetja en texti efni í staðinn. Framandi menning komist beint til skila. Lönd: Holland, Portúgal, Svíþjóð, Danmörk, Ísrael o.fl.
Þorbjörn kom næst inn á auglýsingar og hvernig auglýsingar í fjölmiðlum hér á landi upp á um 4 miljarða á ári hljóti að vera til marks um áhrif fjölmiðla á samfélagið. Mest fari til dagblaðanna eða 56%, sjónvarp er með 19%, útvarp með 16%.
Loks kom Þorbjörn inn á eigin rannsóknir á sviði fjölmiðlunar. Hann sagði einkum frá langtímarannsókn á ungu fólki sem gerð er með könnunum 1968, 1979, 1985, 1991 og 1997. Vöxtur sjónvarpstækja á heimili sé mikill og samanburður á tímabilinu sýni t.d. að eins tækja heimilum hafi fækkað úr 47% í 28% og heimili með tvö eða fleiri tæki fjölgi úr 53% í 72% (örugglega eru svo miklar breytingar til 2001). Hjá ungu fólki dragi mikið úr lestri dagblaða og t.d. fari Morgunblaðið úr 91% niður í 46% á tímabilinu. Bóklestur minnki, eldri krakkar yfirgefi fremur bækurnar en þau yngri og stelpur lesi meira en strákar. Um ungt fólk sem horfi mjög oft ein á sjónvarp komi í ljós að því fjölgar úr 2% í 28% sem þýði að sjónvarp sé að verða einstaklingsbundin athöfn eins og varð með bóklestur áður fyrr. Þorbjörn sagði af þekkingarprófunum í könnununum og tengdi þau sérstaklega umræðunni um áhrif fjölmiðla. Í ljós hefði komið að strákar vissu meira um stjórnmál en stelpur, þeir sem læsu dagblöð öðrum fremur vissu betur en þau sem horfðu mikið á myndbönd og þeir sem horfðu meira á RÚV vissu meira um stjórnmálin en þeir sem horfðu fremur á Stöð2. Þorbjörn sagði að þessi munur væri marktækur þótt hann væri ekki mjög mikill. Þetta væru dæmi um sterk merki sem sýndu áhrif fjölmiðla á samfélagið og vel að merkja, þessi áhrifin væri hægt sem sagt að mæla.
[Tekið niður eftir fyrirlestri af M.G.]
Hagnýting upplýsingatækni í kennslu
Harpa Hreinsdóttir

Harpa ræddi fyrst hvernig upplýsinga- og tölvutæknin breytti ekki endilega svo miklu í kennsluháttum eins og ætla mætti að væri. Vefsíða kæmi í stað þess að dreifa fjölrituðu efni, skjávarpi í stað glæru, internetleit í stað leitar á bókasafni, tölvupóstsendingar í stað verkefnaskila eða verkefnadreifingar o.s.frv.
Breytingar væru alls ekki sjálfgefnar (og kannski væri svo sem engin ástæða til að breyta endilega miklu). Ef gera ætti breytingar þyrfti að hafa fyrir því. Harpa ræddi í framhaldinu um hinar ýmsu leiðir, bæði "hefðbundnar" og nýjar, til hagnýtingar á upplýsingatækninni til náms- og kennslustarfs og sýndi áhugaverð dæmi um framsetningu efnis á internetinu. Sjá nánar efni Hörpu hér að neðan.
Hagnýting UT í kennslu (PowerPoint skrá)
Krækjur í efni tengt félagsfræðikennslu, fjölmiðlum og hagnýtingu UT í kennslu
Árleg ráðstefna ATSS
Hjördís Þorgeirsdóttir og Hannes Í Ólafsson
Árleg ráðstefna ATSS (Samtök félagsfræðikennara í Bretlandi) haldin í júlí 2001. Hjördís og Hannes segja fréttir af ráðstefnunni og kynna á gögn frá henni.
ATSS ráðstefna 2001 í Háskólanum í Leicester. Punktar úr fyrirlestrum.
Samantekt Hjördísar af ráðstefnunni. (Word- skrá).
Heimasíða ATSS
http://www.le.ac.uk/education/centres/ATSS/atss.html